145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[12:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er lagt til að orkuskattur á stóriðju sem að óbreyttu mun renna út um áramót verði framlengdur. Það er athyglisvert að sjá skattstefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart atvinnulífinu. Henni finnst sjálfsagt að skattleggja aðföng þekkingarfyrirtækja sem eru laun en hún vill ekki skattleggja aðföng stóriðjunnar eins og raforkuna. Hún vill ekki setja raunverð á aðföng sjávarútvegsfyrirtækja með því að láta greiða í sameiginlega sjóði sanngjörn veiðigjöld sem endurspegla raunverulega auðlindarentu og hún vill ekki leggja gjöld á ferðamenn sem eru auðvitað aðföng ferðaþjónustunnar.

Það er bara ein grein sem á í alvöru að bera kostnað af aðföngum sínum og það eru þekkingarfyrirtæki sem þurfa að bera kostnað af skattlagningu á laun.