145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[12:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að greiða atkvæði með þessum þætti frumvarpsins þar sem um er að ræða frítekjumark örorkulífeyrisþega. Ég vil bara hrósa stjórnarmeirihlutanum fyrir að hafa ákveðið að framlengja tímamótasamkomulagið sem hv. þm. Willum Þór Þórsson lýsti réttilega svo og náðist árið 2010. Við lögðum gríðarlega vinnu í að ná samkomulagi við lífeyrissjóði, lögðum nærri 2 milljarða í að fjármagna það samkomulag á þeim tíma þegar engir peningar voru til, unnum að því allt árið 2010, og það var gengið frá því undir lok árs af þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Guðbjarti heitnum Hannessyni. Það er sérstaklega ánægjulegt að greiða atkvæði með framlengingu þess núna og ég ítreka hrós til stjórnarmeirihlutans fyrir að halda áfram þessu þjóðþrifaverki.