145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[12:18]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Við í Bjartri framtíð erum á móti þessu líka. Þó að þetta séu ekki stórar upphæðir er þetta engu að síður mjög furðulegt og lýsir hringlandahætti í því mikilvæga verkefni sem er að fjármagna uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu. Ég vil bara minna á að við þingmenn Bjartrar framtíðar settum það á oddinn 2012, vorum aðeins færri þá, að farið yrði í fjárfestingarverkefni. Það fékk góðar undirtektir og margir þingmenn deildu þeim áherslum. Þá var samþykkt að fara í markvissa uppbyggingu á innviðum ferðaþjónustunnar og setja pening í það af tekjum sem voru augljóslega fyrir hendi á þeim tíma. Það var brotabrot af þeim arði sem kemur af eigum ríkisins í fjármálastofnunum. Það fyrsta sem ríkisstjórnin gerði var að blása þetta af og í rauninni blés hún af margt mjög gott og hefur síðan einhvern veginn verið að hringlast með þetta verkefni, pota því inn í fjáraukalög og þar fram eftir götunum og svo núna skera af þó þeim mörkuðu tekjum (Forseti hringir.) í gistináttagjaldi sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða á að hafa. Þetta er svolítið skrýtið.