145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[12:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Klúður ríkisstjórnarinnar í málefnum ferðaþjónustunnar ríður ekki við einteyming. Hér er verið að skerða lögbundin framlög í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Það er búið að klúðra tækifærinu til að láta þessa vaxandi atvinnugrein leggja af mörkum í þá uppbyggingu sem er óhjákvæmileg til að henni farnist vel. Það þarf að byggja upp ferðamannastaði, það þarf að byggja upp vegi og í þinginu hefur verið eindreginn vilji til að mæta þessum sjónarmiðum og tryggja að hægt sé að leggja gjöld á ferðamennina sjálfa til að standa undir þessum kostnaði.

Nei, hvað gerir ríkisstjórnin? Hún býr til nýja pilsfaldaatvinnugrein og fjármagnar úr ríkissjóði framkvæmdir við ferðamannastaði, framkvæmdir sem ættu að vera fjármagnaðar af greininni sjálfri. Skattfé sem gæti runnið til Landspítalans rennur í þetta í staðinn fyrir að greinin sjálf sem vex hratt, helst til hratt satt að segja og þyrfti bara einfaldlega að geta lagt af mörkum sjálf, geri það. (Forseti hringir.) Þetta er óskiljanleg afstaða. Hún er hins vegar í samræmi við annað hjá þessari ríkisstjórn sem virðist ekki geta skilið að farsæld íslensks atvinnulífs felst í því að hafa sjálfbærar atvinnugreinar sem skila arði í ríkissjóð.