145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[12:21]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Þetta er tæknileg færsla sem hefur ekki áhrif á þennan lið og það sem við samþykktum hér við 2. umr. fjáraukalaga sem er tengingin við gistináttagjaldið sem rennur inn í framkvæmdasjóðinn. Þar koma þær 27 milljónir sem raunálagning gistináttagjaldsins er.

Varðandi Framkvæmdasjóð ferðamannastaða er ótrúlegt að hlusta á málflutninginn. Frá árinu 2011 þegar Framkvæmdasjóður ferðamannastaða var settur á laggirnar hefur verið úthlutað úr honum 2,3 milljörðum kr., þar af 1.700 millj. kr. aukalega til viðbótar við gistináttagjaldið frá því að þessi ríkisstjórn tók við. Nú ætlum við að gera enn betur, á næsta ári verða tæplega 700 milljónir til ráðstöfunar úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Það er algerlega með ólíkindum að hlusta á þetta frá fyrrverandi ríkisstjórn sem setti tæplega 300 milljónir inn í þennan málaflokk á sínum tíma. (Forseti hringir.) Eigum við ekki frekar að sameinast um það verkefni, sem við erum að gera varðandi ferðaþjónustuna, að bæta verklagið þannig að fjármunirnir sem koma hingað inn verði sannarlega nýttir í þágu uppbyggingar í ferðaþjónustunni? Það er það sem við ætlum að gera hér. [Kliður í þingsal.]