145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[12:23]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að fagna þeim breytingum sem við erum að klára að greiða atkvæði um þar sem verið er að leyfa launafólki að halda eftir meiru af tekjum sínum. Það er verið að bæta kjör fólksins í landinu á ýmsan hátt. Það hefur verið furðulegt að hlusta á margt í umræðunni hér í dag þar sem því er haldið fram að með því að bæta kjör fólks, með því að standa við gerða kjarasamninga, sé ríkið að afsala sér einhverju sem það eigi og með því geti það ekki notað fjármagn í önnur þörf verkefni. Þetta er sérstaklega bíræfið í ljósi þess að núverandi stjórnarandstaða gerði einmitt tilraun með sínar hagfræðikenningar á síðasta kjörtímabili þar sem hvers konar skattar voru hækkaðir trekk í trekk, alls konar gjöld á allt milli himins og jarðar. Hver var afraksturinn af því? (Gripið fram í.) Varð til meiri peningur til að setja í Landspítalann? Varð til meiri peningur til að bæta (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) stöðu öryrkja og eldri borgara? (Gripið fram í.) Nei, virðulegur forseti, (Gripið fram í.) það nefnilega skilaði sér ekki. Það þýddi að síðasta ríkisstjórn gat ekki sett eins mikið og þessi í Landspítalann og hún gat ekki bætt kjör eldri borgara og öryrkja jafn mikið og þessi. Menn gleymdu að hvati þarf að vera til staðar. Hvati til verðmætasköpunar skilar sér hjá þessari ríkisstjórn og gerir okkur kleift (Forseti hringir.) að bæta við á öllum sviðum. [Kliður í þingsal.]