145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

happdrætti og talnagetraunir.

224. mál
[12:25]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Sá tími er liðinn að ég sé tilbúinn að greiða atkvæði með framlengingu leyfisveitinga til happdrætta eins og ég hef verið tilbúinn að gera til þessa. Ástæðan er sú að ég hefði viljað sjá verulegar grundvallarbreytingar gerðar á umhverfi þessa tugmilljarðaiðnaðar í landinu. Ég geri greinarmun á happdrættum annars vegar og spilakössum og spilavítum hins vegar. Hin almennu happdrætti taka lítið af mörgum, spilakassarnir taka mikið af fáum og allt af sumum. Þeir frelsa engan, þeir svipta marga frelsinu. Ég geri greinarmun á þessu tvennu að sönnu. Við erum hér að tala fyrst og fremst um happdrættin.

Ég vek athygli á því að á síðasta kjörtímabili setti ég fram tillögur í þessum þingsal. Ég vildi koma á fót Happdrættisstofu. Hún átti að kosta 50 millj. kr. á ári. Helmingurinn átti að fara (Forseti hringir.) til forvarna og til að lækna fólk (Forseti hringir.) sem hafði ánetjast spilafíkn. Þetta voru 50 milljónir sem áttu að dreifast svona. Fyrr (Forseti hringir.) í þessari viku samþykkti meiri hluti þingsins tillögu Sjálfstæðisflokksins um (Forseti hringir.) 65 millj. kr. í Stjórnstöð ferðamála, nýja stofnun. Hafa menn heyrt talað um tvískinnung? (Gripið fram í: Já, heyr, heyr.)