145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í síðustu ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, við 2. umr. fjáraukalaga fór hv. þingmaður sjálfur fram á það að fjáraukalögin yrðu kölluð inn á milli umræðna og nefndi sérstaklega að þar yrði rætt um breytingartillögur minni hlutans um afturvirkar greiðslur til aldraðra og öryrkja. Ég verð að viðurkenna að ég var vongóð um að meiri hlutinn ætlaði að taka málið til skoðunar á milli umræðna af einhverri alvöru og hélt að einhver hreyfing væri á málinu, menn væru tilbúnir að gera eitt og annað. Svo var ekki, því miður.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er í Framsóknarflokknum sem oft hefur verið með einhverjar félagslegar taugar í sér og var ekki með tekjuskattslækkanir á sinni stefnuskrá, heldur þvert á móti mikla aukningu. Ég man að hv. þingmaður nefndi sjálf 13 milljarða til nýrra verkefna og bættrar stöðu Landspítalans. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort henni finnist ekki þessi félagslega taug í Framsóknarflokknum skjálfa og togna þegar við erum að lækka tekjuskatt á til dæmis okkur þingmenn? Við getum spanderað 6 þús. kr. meira á mánuði við skattalækkanir sem voru samþykktar hér áðan en það er verið að halda öldruðum og öryrkjum á árinu 2015 á verri kjörum þegar horft er á landið yfir heild og það er óumdeilt. Finnst hv. þingmanni þetta vera í takt við hinar félagslegu áherslur Framsóknarflokksins?