145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem aldrei viljað blanda sjálfri mér í ræður sem ég held, þannig að ég ætla að láta því ósvarað hverjar lækkanir eða hækkanir þingfararkaups eru, því að eins og allir vita tökum við okkar launakjör út frá kjararáði, þannig að það sé sagt í eitt skipti fyrir öll.

En hv. þm. Oddný Harðardóttir, veit jafn vel og ég að ég sem formaður fjárlaganefndar stóð fyrir því að taka á móti þeim gestum sem minni hlutinn í fjárlaganefnd óskaði eftir. Það voru fulltrúar eldri borgara og öryrkja og var sá fundur opinn fjölmiðlum í fyrsta sinn í tíð fjárlaganefndar, alla vega undir minni stjórn, og ég held að það sé einsdæmi í sögu þingsins. Það var afar góður fundur. Farið var vítt og breitt yfir málin í eina tvo tíma fyrir opnum tjöldum fjölmiðla, þannig að allir höfðu aðgang að því sem áhuga höfðu á að fylgjast með umræðunum sem fram fóru á þeim fundi.

Nú er það svo, ef ég má orða það þannig, að 69. gr. almannatryggingalaga er kjararáð eða kjaradómur þeirra hópa sem þiggja bætur, vegna þess að það er skýrt ákvæði í þeirri lagagrein hvernig þessar bætur skulu hækka. Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2016 var þessi hækkun upp á 9,4%. Þegar ný hagvaxtarspá kom út var ljóst að meira svigrúm var en gert hafði verið ráð fyrir og þessir hópar áttu inni miðað við það hvernig þeir stóðu þegar fjárlagafrumvarpið var birt. Því fengu þeir hækkun upp á 0,3% og nú stendur það í 9,7%.

Virðulegi forseti. Ég vil líka taka fram að þarna er búið að taka tillit til fjölgunar í þeim hópum þannig að það eru 9,7% sem þessir hópar fá og komið hefur fram að það er nákvæmlega rétt reiknað.