145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Opni fundurinn var haldinn að kröfu minni hlutans (Gripið fram í.) og vísað í þingsköp hvað það varðar. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður lét að því liggja að það hefði verið sérstakt framfaraskref af hálfu meiri hlutans. En látum það gott heita, ég vil bara minna á að lög um almannatryggingar eru til þess að standa vörð um lágmarkskjör aldraðra og öryrkja. Fordæmi er fyrir því að gera betur, það var gert um mitt ár eftir kjarasamninga 2011. Það er ekkert sem segir að ekki megi gera betur, lögin eru aðeins til að gæta lágmarkshagsmuna.

Ég hef aldrei haldið því fram að meiri hlutinn hafi reiknað rangt, ég er aðeins að segja: Þetta er of lágt. Það er ekki hægt að segja að kjör aldraðra og öryrkja á árinu 2015 og þeirra með lægstu laun á árinu 2015 séu sambærileg vegna þess að munur á þessum tvennum árstekjum á árinu 2015 er 260 þús. kr. Á árinu 2016, þegar búið er að hækka um 9,7% sem hv. þingmaður fór yfir áðan, verður munurinn 216 þús. kr. á árslaununum vegna þess að lægstu laun hækka frá 1. maí 2016. Með þessum aðgerðum er verið að sjá til þess að þeim sem hafa engar aðrar tekjur, þeim lífeyrisþegum sem hafa engar aðrar tekjur, sé haldið undir lágmarkslaunum í landinu. Öldruðum og öryrkjum sem ekki geta unnið fyrir sér á vinnumarkaði er haldið sem fátækasta hópnum í samfélaginu. Það er ekki í anda laga um almannatryggingar. Það eru þau skilaboð sem við höfum verið að reyna að koma á framfæri og það er reikningsdæmið sem við þurfum (Forseti hringir.) að láta ganga upp með fjárframlögum hér í þingsal.