145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:53]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og vil taka undir að það er alltaf mjög mikilvægt þegar við ræðum um kjör lífeyrisþega eða bara mál lífeyrisþega yfir höfuð að muna eftir því að þetta er auðvitað fyrst og fremst fólk og þetta er fólk sem er ólíkt eins og gildir um alla aðra hópa fólks. Við verðum að muna eftir því að við erum að tala um breytingar sem taka fyrst og fremst til þeirra sem eru á bótum frá almannatryggingakerfinu eingöngu.

Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður sagði um að það gengi auðvitað ekkert að ætla að svelta fólk út á vinnumarkaðinn. Það á auðvitað sérstaklega við um ellilífeyrisþega en það eru líka hópar öryrkja sem ekki geta stundað atvinnu og því miður er kerfið þannig að þeim sem þó geta stundað einhverja atvinnu er gert erfitt fyrir með tekjutengingum í kerfinu.

Það er annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í vegna þess að okkur hættir stundum til að tala bara um ein lög í einu eða eina breytingu í einu eins og það sé ekkert annað samfélag hérna sem einhver dýnamík er í. Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann varðar ákvæði í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég veit vel að það er ekki allt fatlað fólk lífeyrisþegar en þetta er stór hópur og það segir í 28. gr. þessa samnings:

„Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til handa, m.a. viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar.“

Er hv. þingmaður mér sammála í því að nú þegar við vinnum að innleiðingu á þessum samningi þá sé þetta ákvæði kannski aðeins að gleymast?