145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem deilurnar hér hafa mest snúist um hefur auðvitað verið málið aldraðir og öryrkjar og tillögur sem við höfum lagt fram í stjórnarandstöðunni um afturvirkar bætur til þeirra.

Nú hefur það komið fram margsinnis hjá hv. þingmönnum stjórnarliðsins, sem margir hafa grátið úr sér augun hér af samúð með þessum hópi í ræðustól, að því miður sé ekki til fé í ríkissjóði. Hver á nú að trúa því þegar sjálfir tala stjórnarliðarnir um að hér sé mesta góðæri sem sögur fara af?

Ég hef eina spurningu til hv. þingmanns. Sú tillaga sem hv. þingmaður talaði fyrir varðandi afturvirkar bætur til aldraðra og öryrkja kostar 6,5 milljarða. Þeir 6,5 milljarðar eru ekki til segja margir stjórnarliðar um leið og þeir segjast gjarnan mundu vilja styðja slíka tillögu. En er það ekki svo, hv. þingmaður, að stjórnarliðið hefur hér fyrr í dag verið að samþykkja tillögu um breytingar á tekjusköttum sem leiða til þess að þeir sem eru hvað tekjuhæstir, 700 þús. kr. mennirnir og þar yfir, fá langmest og er ekki rétt skilið hjá mér að sú breyting sem var samþykkt hér fyrr í dag kosti líka á ári um það bil 6,5 milljarða? Með öðrum orðum að sú breyting sem átti að ná til tveggja ára sé einhvers staðar nálægt 11–12 milljörðum eða nánast nákvæmlega sama upphæðin og hefði þurft til aldraðra og öryrkja á þessu ári og því næsta. Mig langar að fá álit hv. þingmanns á því.