145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hv. þingmaður orða þetta ágætlega og draga einmitt fram þessar skörpu línur.

Annað sem mér hefur fundist merkilegt í þessari umræðu er staða Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn samþykkti á sínum stóra fundi að hann ætlaði að standa vörð um kjör aldraðra og öryrkja. Það var kosningaloforð að hugsa sérstaklega um Landspítalann. Þeir voru ekki með á sinni kosningaloforðaskrá að lækka tekjuskattinn eða taka út þrepaskattinn. Það var ekki forgangsmál þeirra. Þannig að í þessu máli hafa framsóknarmenn orðið algjörlega undir og ekki nóg með það heldur reka harðari stefnu eins og kemur fram í máli formanns fjárlaganefndar og tala með skarpari hætti fyrir því að það eigi að halda þessum hópi undir lágmarkslaunum.

Ég er mjög hissa á því og spurði því formann fjárlaganefndar í dag hvar félagslega taugin væri í Framsókn, hvort hún væri bara slitin eða á henni hefði tognað þannig að ekki heyrðist frá henni jákvæður tónn. Formaður fjárlaganefndar svaraði því svo sannarlega með skýrum og skilmerkilegum hætti að það væri skoðun hennar, talsmanns Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd, að bætur öryrkja og aldraðra ættu að vera lægri en lægstu laun. Það væri kannski hægt að laga þá stöðu ef þeir mundu hætta bótasvikunum. Svona er talað af hálfu framsóknarmanna til hópsins.