145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:06]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Svo ber við í fjárlagafrumvarpi þessa árs að settar verða 860 milljónir í uppbyggingu ferðamannastaða, þ.e. til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Ég hef undanfarin ár gert athugasemdir við þennan lið sem stækkar umtalsvert frá ári til árs. Ef ég man rétt var hann árið 2013 eitthvað um 300 milljónir, árið 2014 eitthvað í kringum 500 og nú er hann 860 milljónir.

Það er auðvitað mjög holur hljómur í ræðum þeirra stjórnarliða og ábyrgu fjárlaganefndarmanna sem halda því fram hér og setja upp alveg sérstaklega ábyrgðarfullan svip að engum stofnunum verði liðið að fara fram úr fjárheimildum og að hinar og þessar mikilvægu stofnanir samfélagsins verði að gera svo vel að láta það fjármagn sem þeim er skammtað duga fyrir rekstri sínum og verkefnum, en á sama tíma er ríkið með rassvasabókhald yfir uppbyggingu ferðamannastaða og slumpar á hverju einasta ári fjármagni í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða eftir á. Þetta er verkefni sem virðist hafa orðið núverandi stjórnarmeirihluta fullkomlega ofviða.

Það er þannig með svona verkefni að tilhneiging er oft hjá stjórnmálamönnum og stofnunum að fara lengri leiðir að markmiðum sínum en nauðsynlegt er. Þess vegna hafa ráðamenn núverandi hæstv. ríkisstjórnar lagt af stað í mjög mikla leiðangra í því augnamiði að reyna að ná utan um þetta tiltekna verkefni, m.a. með lögum um náttúrupassa sem tók ærinn tíma að undirbúa, svo langan tíma að það hefur verið harðlega gagnrýnt í þessum sal, og loksins þegar mikill lagabálkur frá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra leit dagsins ljós um þessi efni þá var enginn pólitískur stuðningur fyrir lagasetningunni, hvorki hjá meiri hluta né minni hluta. Sú lagasetning og öll sú vinna með hugmyndum um náttúruverði og ég veit ekki hvað og hvað rann út í sandinn. Það var sorglegt að fylgjast með því, ekki síst vegna þess hversu mikil sóun er í því fólgin.

Síðan gerðist annað á þeim tíma sem tók að vinna það mál. Það varð gerbylting, svo mikil stigveldisaukning á komu ferðamanna til Íslands að menn sáu strax í hendi sér að það mundi verða unnt að innheimta með hefðbundnum skattaleiðum og gjaldaleiðum nægilegt fjármagn til að standa straum af uppbyggingu ferðamannastaða hringinn í kringum landið. Þessi mikli straumur hefur í för með sér töluverðar hættur þó að auðvitað sé fagnaðarefni að ný meiri háttar atvinnugrein hafi orðið til, en það þarf að bregðast við þeim varúðarmerkjum sem eru á lofti í þeim efnum. Þess vegna eru mikil vonbrigði að sjá að enn á ný hefur ríkisstjórninni reynst um megn að leysa þetta vandamál.

Hinn stóri leiðangurinn sem lagt var af stað í vegna þessa máls var frumvarp umhverfisráðherra um uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu, sem er meiri háttar 12 ára áætlanagerð, ekki ósvipuð samgönguáætlun með skemmri framkvæmdatíma og lengri, mikilli verkefnisstjórn og mjög óskilgreindu samspili við þær stofnanir sem fyrir eru. Þessari áætlanagerð var ætlað að taka við fjármununum sem áttu að innheimtast út af náttúrupassanum og deila þeim út til verkefna víðs vegar um landið. Frumvarpið um uppbyggingu innviða er enn í umhverfis- og samgöngunefnd og sér ekki fyrir endann á þeirri vinnu. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að hlutir séu unnir með þessum hætti, þ.e. reynt sé að setjast yfir málin og búa til langtímaáætlanir, en það sem hins vegar blasir við núna er þörfin á að bregðast skjótt við.

Ég talaði um að það væri stundum tilhneiging hjá stofnunum og stjórnmálamönnum að fara lengri leiðirnar að markmiðunum en mér sýndist unnt að fara styttri leið. Þess vegna skrifaði ég lítið þingmál sem felur í sér breytingu á sveitarstjórnarlögum og lagði fram á þingi í haust. Ég hef reyndar ekki fengið að mæla fyrir því máli enn þá, því miður. Það hefði að mínu viti leyst þessi tvö stóru mál af hólmi. Í því felst að sveitarstjórnum, sem er langlíklegast að séu í færum til að meta nauðsyn þess að standa að tiltekinni uppbyggingu ferðamannastaða, er falið það vald eða veitt sú heimild að ákveða að innheimta sérstakt gjald vegna uppbyggingar tiltekinna ferðamannastaða og standa straum af uppbyggingunni og innheimta gjaldið á meðan á uppbyggingunni stendur. Þetta fæli í sér að þeir sem fénýta ferðamannastaði mundu standa straum af gjaldinu. Þeir sem væru að selja ferðir á tiltekna ferðamannastaði mundu greiða sérstakt gjald, þ.e. þriðji aðili, ekki eigandi lands, ekki ferðamenn eða þjóðin sjálf heldur bara þeir sem selja á staðina. Þeir mundu standa straum af þessu gjaldi vegna þess að þeir eru hagsmunaaðilar. Ég held að þetta sé mjög einföld og stutt leið til að mæta vanda sem þarf að leysa.

Ég vildi koma hingað upp og gera grein fyrir því máli sem ég hef lagt fram. Ég sé þetta fyrir mér sem einhvers konar tímabundna ráðstöfun til að mæta aðsteðjandi vanda og koma í veg fyrir tjón því að við verðum að gæta þess að umgangast þá viðkvæmu staði sem mikil ásókn er í með sjálfbærum hætti þannig að ekki sé verið að skemma þá, þeir séu jafnframt öruggir og það séu þeir sem græða peninga á stöðunum sem standi straum af uppbyggingu þeirra. Auðvitað yrði það þannig á endanum að ferðamaðurinn sjálfur mundi greiða þetta gjald. Þetta er ein útfærsla af því sem kallað hefur verið nýsjálenska leiðin í innheimtu ferðamannagjalda, þ.e. að þeir sem fénýta séu með einhvers konar samning og standi straum af tilteknum verkefnum vegna þess að þeir njóta góðs af því sem allir eiga.

Sumir hafa sagt: Hvað um þá sem ferðast á bílaleigubílum, eiga þeir ekki að borga? Því ber að svara þannig að þeir greiða nú þegar í gegnum virðisaukaskattskerfið sinn skerf til samfélagsins. Það er því algjör óþarfi að vera að velta því mikið fyrir sér. Stóri fjöldinn sækir í áætlunarferðirnar og ferðafyrirtækin og því eðlilegt að þau standi straum af þessu. Það er hins vegar ekki eðlilegt að mínu mati að slík gjaldtaka geri neitt annað en að sjá til þess að byggt sé upp á stöðunum, þeim haldið við og að innifalin sé einhver verkáætlun og starfskraftar sem fylgi fjármagninu. Því miður er það þannig í þeirri uppbyggingu sem á sér stað núna, þar sem fjárlaganefnd og meiri hlutinn í þinginu dæla handahófskennt eftir á hundruðum milljóna til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, að engin áætlanagerð er um viðhald og eftirfylgni. Það er bara verið að smíða palla, sums staðar mjög ljóta palla og girðingar þar sem engin hönnum fer fram, en það eru engar áætlanir um hvernig stöðunum skuli haldið við og hvernig eigi að tryggja áframhaldandi fjármagn og þar fram eftir götunum.

Ég hef komið upp undir þessum lið nokkrum sinnum. Fyrir mér er þetta orðið þannig að það að koma og tala um þennan lið í fjáraukalögunum er að verða jólahefð. Eftir að ég hef flutt þessa ræðu mega jólin koma fyrir mér. [Hlátur í þingsal.]

Ég vil líka geta þess að ég hef skrifað annað þingmál sem tengist þessum sama málaflokki. Því er ætlað að tryggja að við umgöngumst ferðamannastaði af ábyrgð. Það mál hef ég ekki enn þá fengið að flytja í þinginu, sem er til vitnisburðar um það fyrirkomulag sem gildir því miður um þingmannamál þar sem menn komast einfaldlega ekkert að með sín mál. Í því máli felst að búin verði til einhvers konar hæfisskilyrði fyrir leiðsögumenn, sérstaklega þá sem leiðsegja fólki um hálendi Íslands, um þjóðgarða, um þjóðlendur og friðlönd, þ.e. þau svið landsins okkar sem eru dýrmætust og skipta okkur mestu máli. Það er nefnilega ekki hægt á grundvelli EES-samningsins að mismuna leiðsögumönnum eða öðru fólki sem flyst innan svæðisins eftir þjóðerni. Það er vel. Ég er mjög fylgjandi því. Manni finnst hins vegar að það þurfi með einhverjum hætti að tryggja að lágmarksþekkingu á sérstöðu náttúru Íslands svo að það verði tryggt að erlendir leiðsögumenn hér, sem koma með hópa og fara með þá annaðhvort gangandi, á bílum eða rútum um þjóðgarða, þjóðlendur og friðlönd á Íslandi, hafi lokið einhverju tilteknu námi um til dæmis hvaða áhrif það að skilja lífrænan úrgang eftir í íslenskri náttúru hefur vegna þess að afleiðingarnar af því eru allt aðrar en í skógum Suður- eða jafnvel Norður-Evrópu. Hér á landi tekur miklu lengri tíma fyrir slíkt að brotna niður o.s.frv. Það að ganga á tilteknum stöðum á sérstökum náttúrumyndunum á Íslandi getur haft miklu alvarlegri og verri langvarandi áhrif en að gera það utan stíga annars staðar, t.d. í Evrópu. Utanvegaakstur hefur sömuleiðis miklu alvarlegri afleiðingar fyrir náttúru Íslands en einhvers staðar annars staðar vegna þess að náttúran hér er mjög lengi að jafna sig. Mosinn sem hér grær er mjög lengi að vaxa. Skemmdir á honum eru langvarandi.

Ég harma að fá ekki tækifæri til þess að mæla fyrir þessu máli og enn fremur að kerfið, þingið og ríkisstjórnin, ráði ekki við svo aðkallandi verkefni, ýmist vegna þess að pólitíkin flækist fyrir eða vegna þess að menn reyna eftir fremsta megni að leysa málin með einhverjum lagabálkum þegar hægt er að fara miklu skemmri og einfaldari veg til að takast á við mjög aðkallandi verkefni.

Frú forseti. Nú mega jólin koma fyrir mér.