145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:22]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér hefur reyndar sýnst hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og ráðherra ferðamála ferðast svo mikið að henni veiti ekki af sérstakri stjórnstöð ferðamála. Auðvitað hefði maður viljað fá þá stefnumótun sem í því fólst hingað inn í þingið og fá tækifæri til þess að fara yfir það í formi þingmáls og umræðu í þingsal. Mér sýnist einfaldlega að þetta kjörtímabil allt muni líða áður en núverandi meiri hluti nái utan um uppbyggingu þessara ferðamannastaða. Þess vegna verði aftur á næsta ári sama staða uppi á fjáraukalögum næsta árs að menn slumpi eftir á þeim fjármunum sem þeim tókst að koma út í uppbyggingu á ferðamannastöðunum það árið.

Það á ekki að koma neinum Íslendingi á óvart að helsti framkvæmdatíminn á Íslandi þegar kemur að uppbyggingu, ég tala nú ekki um þegar komið er aðeins upp fyrir 100 eða 200 metra, er yfir sumarið. Það á ekki að koma neinum í opna skjöldu að þurfa að gera áætlanir sem miða við það að geta byrjað slíkar framkvæmdir að vori og nýtt sumarmánuðina og fram á haustmánuðina til að klára verkefnið. Það er eins og menn séu alltaf svo rækilega hissa á því að ná ekki að komast yfir verkefnin sem við blasa og alltaf jafn rækilega hissa á því að nauðsynlegt sé að búa til einhvers konar áætlanir og setja niður fyrir sig hvernig á að ráða við verkefnið. Ég ímynda mér að það ætti ekki að þurfa að taka svo langan tíma. Það sýnir auðvitað að það er engin almennileg verkstjórn í gangi í núverandi ríkisstjórn þegar kemur að þessum málaflokki. Þess vegna er hann í skötulíki. Það skrifast alfarið á slæleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar.