145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:27]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það væri góðra gjalda vert að lögverja starfsheiti leiðsögumanna. Það er alveg ágætismenntun sem býr þar að baki og sjálfsagt mál að gefa þeim þann status að geta samið sem hópur um sín kjör og þar fram eftir götunum. Auðvitað er það þannig að mikill fjöldi fólks starfar við ferðaþjónustu með mismunandi hætti, sumir sem leiðsögumenn og aðrir sem fararstjórar. Hafi menn áhyggjur af því að geta ekki náð í það vinnuafl sem skortir í þessum efnum þá er auðvelt mál að bæta við fararstjórum þegar svo ber undir. Leiðsögumenn hafa lokið ákveðinni menntun. Það er auðvitað líka þannig með marga þá sem koma hingað frá öðrum löndum, að þeir hafa gert það í sínum heimalöndum.

Það sem ég hef kannski verið að hugsa og er að hugsa í frumvarpi mínu sem ég hef lagt fram um þessi efni felur í sér að minnsta kosti að þeir, þó þeir hafi klárað slíka menntun í sínu heimalandi, taki sérstakt námskeið í náttúru og vistfræði Íslands af því að hún er sérstök. Hún nýtur ákveðinnar sérstöðu og hana þarf að umgangast með alveg sérstökum hætti. Þetta er svona meginefni hugsunar minnar með frumvarpinu, að búa til alla vega þá tryggingu. Þó að við séum ekki að útiloka aðrar þjóðir til að sinna þeim störfum hér, þá tryggjum við hagsmuni náttúrunnar í þessum efnum. Það er það sem er svona meginefni þess frumvarps en ekki að lögverja titil, starfsheiti leiðsögumanna, þó að mér finnist það í sjálfu sér góðra gjalda vert, sérstaklega ef mikil eftirsókn er eftir því hjá leiðsögumönnum. Það eru aðrar stéttir, sú stétt sem ég tilheyrði áður en ég fór í stjórnmál, blaðamennskan, hún er ekki lögvarin. Það er mjög jákvætt fyrir þá stétt vegna þess að það felur í sér að fólk með alls konar bakgrunn og menntun vinnur þau störf (Forseti hringir.) sem er aftur mjög gott fyrir miðlana og umræðuna.