145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:31]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég hef sagt í atkvæðaskýringum og ræðum um atkvæðagreiðslur í þinginu vill svo til að landi okkar er stjórnað af meiri hluta sem vill ekki gera jafn vel við aldraða og öryrkja og aðra hópa. Það blasir við, menn þurfa ekkert að velkjast í vafa um það. Það er auðvitað fullkomið fals og fullkomlega rangt að þeir fjármunir til að gera þetta séu ekki til. Ég og minn flokkur höfum ítrekað bent á það á síðustu árum að hér er verið að setja árlega, ég held í fjárlagafrumvarpinu í ár, um 15 milljarða í leiðréttingu húsnæðisskulda mjög tiltekins hóps í landinu, 15 milljarða, sem nær ekki til allra landsmanna, langt í frá. Ég held að ég sé ekki að fara með ranga tölu þegar ég segi að minnsta kosti tveir eða þrír af þessum milljörðum fari til fólks sem borgar auðlegðarskatt, sem segir manni að verið er að eyða þeim peningum í vitleysu. Það væri að minnsta kosti hægt að nýta þá á réttlátari og sanngjarnari hátt.

Auðvitað verður þessi meiri hluti að bera ábyrgð á sínum pólitísku skoðunum og forgangsröðun, en hann getur ekki haldið því fram að þessir fjármunir séu ekki til. Það liggur fyrir. Búið er að benda á það nákvæmlega hvar hefði verið hægt að ná í þá. Það er einfaldlega þannig að meiri hlutinn sem stjórnar landinu vill ráðstafa þeim öðruvísi og hefur til þess meiri hluta í þinginu, hafði til skamms tíma til þess stuðning í samfélaginu, en það styttist nú í annan endann á þeim stuðningi og þeim dögum sem hann hefur til þess að forgangsraða með þessum hætti.