145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:36]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í þessum efnum.

Það sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni áðan og er eftirtektarvert og auðvitað svolítill holur hljómur í er að halda því fram að stjórnarmeirihlutinn sé með fjárlagafrumvarpi sínu og þeim vinnubrögðum sem okkur birtast þar að umgangast ríkisfjármálin með sérstaklega ábyrgum hætti. Á sama tíma og hann er núna í fjáraukalögunum sem við ræðum hér að slumpa eftir á úr rassvasanum því sem tókst að eyða þegar kemur að uppbyggingu ferðamannastaða. Það eru auðvitað ekki vinnubrögð sem eru til fyrirmyndar. Fjárlagafrumvarpið sem var mikið rætt núna kom tiltölulega snemma fram. Síðan leið langur tími áður en það kom til umræðu. Umfangsmiklar breytingartillögur komu frá ráðherranum sem lagði málið fram og síðan komu tillögur frá meiri hluta nefndarinnar. Það er því kannski ósköp eðlilegt að málið hafi verið töluvert mikið rætt hérna. En á það skortir hins vegar töluvert að við séum að fara almennilega ofan í saumana á mörgu því sem liggur að baki, eins og til dæmis uppbyggingu ferðamannastaða sem ég gerði að umtalsefni. Það er umhugsunarefni að maður hafi ekki nein önnur tækifæri til að ræða málaflokkinn sjálfan sem brennur svolítið á manni, nema í umræðu um fjáraukalög.