145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Nú erum við að koma að lokaumræðu þessarar fjáraukalagaumræðu og margt breyttist á milli umræðna, frá því frumvarpið var lagt fram og þar til það fór í 2. umr. og en svo breyttist frumvarpið lítið milli umræðna núna. Ég fór vel í gegnum marga hluti þegar við tókum þetta fyrir síðast og gagnrýndi og fyrst og fremst vegna þess að frumvarpið á að snúa að því sem óvænt er. Við höfðum bent á tiltekna þætti sem alls ekki eru neitt óvæntir sem felast bæði í vegagerðarmálum sem ákveðin voru í sumar, sem felast í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og svo mætti áfram telja. En stórar tölur eru þarna undir sem er í raun algerlega ótækt þegar það liggur fyrir við gerð fjárlaga að það þarf að fara út í þetta.

Það má líka velta því fyrir sér, í ljósi þess sem ríkisstjórnin hefur verið að gera, að í minnisblaði frá ráðuneytinu í lok nóvember kemur fram að vísbendingar séu um þenslu í hagkerfinu og undirliggjandi verðbólguþrýsting vegna kjarasamninganna sem gerðir hafa verið, og lagt er til að stemma stigu við ríkisútgjöldum. Það hefur svo ekki orðið raunin. En það sem ég hef miklu frekar haft áhyggjur af eru tekjuöflunarleiðirnar sem við ræddum hér áðan, bæði varðandi yfirstandandi ár og eins árin fram undan. Ríkisstjórnin er að fara í tekjuskattslækkanir sem verða þess valdandi að ýta undir þær áhyggjur sem hér er lýst af hálfu fjármálaráðuneytisins, um þenslu í hagkerfinu og undirliggjandi verðbólguþrýsting. Mér finnst því ekki skynsamlega að þessu staðið.

Ég skoðaði landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins og þar kristallast sú stefna sem við höfum verið að fjalla um, þar sem kallað er eftir stórkostlegum samdrætti ríkisútgjalda. Framtíðarsýnin fyrir árið 2025 er vægast sagt gerólík því landi sem við búum í núna, þ.e. velferðarsamfélagi þar sem nokkuð góð sátt hefur ríkt um hvort tveggja, þ.e. viðskiptafrelsi og háa skatta en mikla samneyslu.

Í þeirri ályktun kemur fram að stefna skuli að því að útgjöld hins opinbera verði ekki hærri en 35% af landsframleiðslu árið 2015. Ef við lítum á tölur frá OECD, t.d. frá Danmörku, Svíþjóð, Frakklandi og Þýskalandi, á árabilinu 2000–2013 þá hefur ekkert þeirra landa rekið hagkerfi þar sem ríkisútgjöldin eru svo lág, þ.e. 35%. Mesta sveiflan hefur verið í Danmörku, þar var hlutfallið hæst tæp 59% og lægst árið 2007 þegar það var 49,6%. Frakkar og Svíar eru á svipuðum slóðum og Þjóðverjar hafa aldrei farið niður fyrir tæp 43% af landsframleiðslu. Jafnvel þótt miðað sé við útgjöld hins opinbera að frádregnum lífeyrisgreiðslum hafa flest Norðurlandanna samt verið talsvert yfir 35%.

Sjálfstæðisflokkurinn vill líka stefna að því að tekjuskattur og útsvar lækki niður í 25% á næstu árum. Því markmiði á að ná fyrir árið 2025 og þrepaskipta skattkerfið er út af borðinu, því að væntanlega er verið að boða hér flatan skatt miðað við þetta. 25% er nálægt því hlutfalli sem einstaklingur með meðaltekjur greiðir í Bretlandi og Bandaríkjunum, þannig að það má svo sem segja að þessi landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins um efnahagsmál staðfesti enn og aftur að flokkurinn hneigist ekki til þess norræna módels sem við höfum talað fyrir. Í Bandaríkjunum eru sjö þrep þannig að velta má því fyrir sér hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé miklu lengra til hægri en þeir flokkar sem þar er að finna, og hefur okkur nú oft þótt nóg um, bæði þar og í Bretlandi.

En þetta var bara hugleiðing út frá þeirri pólitík sem birtist í frumvarpinu og birtist fyrr í dag í bandorminum svokallaða. Þá fer maður að velta vöngum yfir hinum ýmsu málum sem hér hafa verið rædd. Við í minni hlutanum erum með tillögu um forgangsröðun í ríkisfjármálum sem augljóslega er ekki sú sama og ríkisstjórnarflokkarnir hafa talað fyrir, og skiptar skoðanir um það. Ég þarf kannski ekki að fara mjög djúpt ofan í það.

Mér finnst vondur bragur á þessum fjáraukalögum vegna þess hversu ofboðslega mikið kemur inn í hann af fyrirséðum útgjöldum. Við höfum talað fyrir því, mörg hver, að þetta sé bagalegt og kannski hafi verið ákveðin harmonía í því að fólki finnist að þetta eigi ekki að vera svona. En þetta ber ekki vott um góða áætlanagerð, sérstaklega þegar vakin er athygli á því við fjárlagagerðina að þetta gangi ekki upp. Þá hefur maður það á tilfinningunni að ekki sé hægt að nýta hugmyndir af því að þær komi frá minni hluta á Alþingi.

Arðgreiðslurnar — ég hef trú á því að þær hafi verið mjög vanáætlaðar í fjárlagafrumvarpinu, þar eru að koma inn háar tölur. Ég hef gagnrýnt að Landsbankinn, bankinn okkar, skilar 18 milljörðum meira í arði en frumvarpið gerði ráð fyrir. Við erum komin að lokum árs og það liggur nokkuð ljóst fyrir hver staða bankans er og hvað hann gæti greitt, og að menn námundi það ekki nær en gert er. Þó að vissulega sé gott að vera varfærinn í tekjuáætlun og raunsær í útgjöldum, þá tekst hvorugt, hvorki hér í fjáraukanum og að mínu mati ekki heldur í fjárlögunum. Þegar við tölum um þau þá fáum við margt þar inn sem var ekki í upphaflega frumvarpinu.

Ég gagnrýndi líka að áhrif kjarasamninga voru bara að hluta til í frumvarpinu, fjárlögunum, sem kom fram hér í haust. Þeir samningar voru samt sem áður klárir í ágúst. Þegar ríkið er að gera samninga þá hlýtur það að velta því fyrir sér hvað þeir kosta ríkissjóð. Það getur bara ekki annað verið. Og að ekki sé hægt að setja þá tölu inn í frumvarpið, að minnsta kosti mun nákvæmar en hér er gert — það munar gríðarlega háum fjárhæðum í frumvarpinu — ber vott um slaka áætlanagerð. Samninganefnd ríkisins veit hver kostnaðarhækkun kjarasamninganna er, eða ég gef mér það. Það er eitt af því sem hæstv. fjármálaráðherra hefur talað mikið um, hvað þessir kjarasamningar kosta. Þetta hefði átt að vera hægt að birta en ekki að taka þetta allt meira og minna, því að það var svo stór hluti sem var tekinn inn við 2. umr.

Síðan er það að færa fjárheimildir milli fjárfestinga og rekstrar, það var gert hér. Það er ekki vanalegt að gera slíkt og er í fyrsta skipti sem ég sé slíkt, að minnsta kosti hvað varðar þau fjárlagafrumvörp sem ég hef farið í gegnum og fjáraukalög.

Barnabæturnar og vaxtabæturnar — við höfum rætt þær ítarlega enda full ástæða til að ræða það jöfnunartæki. Það er partur af því sem ég fór yfir í ályktunum Sjálfstæðisflokksins, en forusta fjárlaganefndar og formaður hennar hefur talað á sömu nótum um það að í staðinn fyrir að jafna stöðu borgaranna um þessar fjárhæðir þá eru 800 milljónir felldar niður. Það hefði verið áhugavert að sjá einhverjar sviðsmyndir, hvernig ætlunin var að dreifa þessu fjármagni, hvernig það hefði dreifst og fara yfir það hvernig það hefði annars orðið.

Við höfum talað fyrir því að útgreiðslureglunum yrði breytt á árinu til að koma þessu fjármagni til skila, því að við teljum ekki að það sé óumdeilanlega réttlætanlegt að ríkissjóður taki þetta til sín aftur.

Framkvæmdir við ferðamannastaði — ég fór aðeins yfir það í andsvari mínu við hv. þm. Róbert Marshall. Það er hjákátlegt að við skulum standa frammi fyrir því að iðnaðar- og ferðamálaráðherra segi að ekki hafi verið hægt að úthluta fjármunum úr sjóðnum vegna þess að fólk hafi ekki verið tilbúið að hefja verkefnin, í staðinn fyrir að segja bara það sem satt er að fólk hafi ekki einu sinni vitað af þessu fjármagni, að það stæði til boða, því var úthlutað seint. Í annan stað eru reglurnar mjög stífar um mótframlag sem sveitarfélög hafa rætt við okkur í fjárlaganefnd og ráðherranum var vel kunnugt um. Til dæmis gátu lítil sveitarfélög, þrátt fyrir mikinn ferðamannastraum, ekki reitt það fram. Ég get tekið Mývatnssvæðið til dæmis. Skútustaðahreppur er lítið sveitarfélag og aðilar í ferðaþjónustu fá kannski sitt, en þeir sem þurfa svo að standa að framkvæmdunum, þ.e. sveitarfélögin, hafa kannski ekki endilega bolmagn til að borga það gjald sem þarf á móti. Auðvitað eigum við eftir að sjá það koma til framkvæmda að tekið sé tillit til þess, að breyta eigi þessum reglum, að sveitarfélögin þurfi ekki að leggja jafn mikið út. En svo varðandi staði í eigu ríkisins; það er svolítið hjákátlegt í þessu. Þeir eru líka hluti af þessu, hófu ekki framkvæmdir á tilskildum tíma eða eitthvað var ekki klárað, að sögn ráðherra. Það þykir mér verulega undarlegt.

Við höfum talað um tekjurnar, farið yfir veiðigjaldalækkun o.fl. Við höfum nefnt virðisaukaskattinn sem fyrst var lækkaður og var skýringin ótrúlega sérstök, að fyrirtæki, sem væru í rekstrarvanda í kjölfar efnahagssamdráttar, væru ekki að gera skil. Það var eins og það væri bara álitið að það væri í lagi og lá við að talað væri um svarta starfsemi.

Virðulegi forseti. Ég ætla samt sem áður að taka síðustu mínúturnar í það að segja: Við þurfum bara vilja til að gera þetta betur. Við þurfum að stoppa framkvæmdarvaldið, það á ekki að leyfa sér að koma fram með svona lélegar áætlanir. Við getum gert það með góðu aðhaldi. En ég hef áhyggjur af því að það frumvarp til fjárlaga sem við vinnum hér með verði með einhverjum öðrum hætti. Ég hef líka áhyggjur af því að fólk hafi ofurtrú á opinberum fjármálum, nýja frumvarpinu, að það leysi svo ótrúlega mörg vandamál, sem ég held að það geri ekki. Það tekur ekki að fullu gildi fyrr en á næsta kjörtímabili.

Ég ætla í lokin að segja að þegar við horfum á talnagrunn og rekstur og útstreymi og innstreymi í ríkissjóð, þegar búið er að taka Landsbankann út og setja hann í sölu, sem ágreiningur er um á milli stjórnarflokkanna, þá erum við því miður með undirliggjandi rekstur sem er mjög viðkvæmur. Bættur hagur okkar hér snýst nánast eingöngu um það að við erum að fá mikinn arð. Þess vegna væri það líka alveg galið að selja Landsbankann þrátt fyrir að við eignumst kannski fleiri banka, en þá er líka viðbúið að ef við ætlum að fara að gera það þá töpum við en græðum ekki.

Virðulegi forseti. Ég læt þetta duga í bili í þessari fyrstu yfirferð í þessari umræðu.