145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Á sínum tíma höfðum við ekkert sendiráð í Strassborg. Síðan gerðist það að formaður Framsóknarflokksins var stutta stund formaður Evrópuráðsins, sem trillar á millum aðildarþjóðanna, og þá var talið rétt af hálfu Íslands að setja þar upp sérstakt sendiráð með sendiherra. Það er skilgreining á sendiráði. Það vakti á sínum tíma töluvert andóf og mótmæli, menn töldu að það væri „spandans“ og lúxus. Í öllu falli, menn geta deilt um það. Hitt verður ekki umdeilt að á síðasta kjörtímabili var sendiráðinu þar lokað. Þar var sendiherra og hann var sendur í burtu. Það var sparað með þeim hætti og það var gert í samráði við fjárlaganefnd Alþingis. Það er forgangsröðun, hv. þm. Karl Garðarsson. (Gripið fram í.) Það var talið að hægt væri að vinna vinnuna gagnvart Evrópuráðinu og skrifstofum þess í Strassborg með öðrum hætti. Það fólst í því að manneskja var send úr sendiráðinu í París einu sinni í viku tvo daga í senn. Það gekk skrugguvel svo að ég segi sjálfur frá. Þeir ágætu þingmenn sem stundum dvelja í Strassborg nutu engu verri þjónustu af hálfu sendiráðsins en áður. Nú er búið að breyta þessu.

Hvað finnst hv. þingmönnum Framsóknarflokksins um að verið er að spenna þetta upp og fjölga sendiherrum? Þarna er nýr sendiherra alveg eins og þegar búið verður að breyta Þróunarsamvinnustofnun með þeim hætti sem hæstv. utanríkisráðherra knúði í gegn hér í morgun, þá verða möguleikar á að búa til þrjá nýja sendiherra. Hér er stjórnarliðið að breyta kerfinu þannig að innan skamms verða komnir fjórir nýir sendiherrar.