145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ræðuna. Ég þakka honum sérstaklega fyrir að rifja það hér upp að á meðan Ísland var enn að vinna sig út úr efnahagskreppunni greiddi vinstri stjórnin lífeyrisþegum afturvirkar bætur. Fordæmið er fyrir hendi, það er til og það er til frá því efnahagsaðstæður voru talsvert aðrar en þær eru núna. Mig langar að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þetta.

Mig langar líka að þakka hv. þingmanni fyrir pólitíska samhengið sem hann setti hlutina í í ræðu sinni, þ.e. samhengið milli þess að afla tekna í gegnum skatta, og hvernig skattar eru hafðir, og svo þess að til séu peningar í ríkissjóði til að setja í verkefni. Mér finnst stundum eins og að fólk vilji gleyma því að það sé samhengi þarna á milli; það fer saman annars vegar hvernig teknanna er aflað og hvort til séu peningar og í hvað þeir eru notaðir. Mér finnst við vera að upplifa rosalega slæmt dæmi um það hvernig þetta er gert á rangan hátt. Afleiðingin er sú að þeir græða mest sem best hafa það og þeir græða minnst sem verst hafa það.

Það hefur komið fram í þessari umræðu að sumum hv. þingmönnum finnst óeðlilegt að lífeyrisþegar hafi sömu kjör og þeir sem hafa lægstu launin. Mig langar einfaldlega að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist eðlilegt að setja þetta í þetta samhengi og hvort honum finnist eðlilegt í velferðarsamfélagi að þeir sem eru aldraðir eða búa við einhvers konar skerðingu séu með kerfisbundnum hætti hafðir undirskipaðastir í samfélaginu.