145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikilvægt að við undirstrikum að forgangsröðunin í tíð síðustu ríkisstjórnar var mjög skýr. Menn bjuggu þar við mjög þröngar og erfiðar aðstæður og það er mála sannast og við erum ekkert að reyna að víkja okkur undan því að farið var um allt skólakerfið, heilbrigðiskerfið, almannabótatryggingakerfið, alls staðar þurfti að skera niður til að ná ríkissjóði saman. Það tókst með þeim ágætum að þegar ríkisstjórnin skilaði af sér kom ný ríkisstjórn að búi þar sem búið var að ná jöfnuði, að minnsta kosti frumjöfnuði, svo að það liggi nú alveg ljóst fyrir.

Svarið er: Nei, mér finnst það ekki réttlátt. Hv. þingmaður er væntanlega að vísa hér til ummæla sem féllu fyrr í dag af vörum hv. formanns fjárlaganefndar sem af einhverjum undarlegum ástæðum hverfur alltaf úr salnum þegar ég held ræður mínar. En við skulum hins vegar vera þakklát fyrir þá ræðu. Hún hrindir algjörlega rökum og stoðum undan því flími og þeirri gagnrýni sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins sérstaklega hafa sett fram á tekjutillögur stjórnarandstöðunnar við þessa fjárlagagerð. Hv. þingmenn, meðal annars hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, komu hér og hlógu að tillögum okkar um að setja meira fé í skatteftirlit og skattinnheimtu. En svo kemur formaður fjárlaganefndar og upplýsir að það séu 80 milljarðar sem liggi úti í samfélaginu í skattsvikum. Það er rétt að rifja það upp að þegar ég sat í fjárlaganefnd kom þar til fundar skattrannsóknarstjóri og tjáði okkur að það væri hans reynsla að fyrir hverja eina krónu sem væri sett í hert skatteftirlit heimtust tíu á móti.

Halda menn að hægt sé að draga úr 80 milljarða skattsvikum nema með því að verja til þess einhverju fjármagni? Svo koma þingmenn stjórnarliðsins og hlæja að því. En hv. þm. Vigdís Hauksdóttir undirstrikaði alla vega nauðsynina.