145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi á hið góða í manninum og ég vil ekki ætla neinum svo illt að menn séu meðvitað að taka út einhvern sérstakan hóp, í þessu tilviki unga karlmenn, og gera þá tortryggilegri en aðra; ég held ekki að það hafi verið meint þannig. En hugsanlegt er að menn hafi haft einhverjar tölur fyrir framan sig og þetta eru auðvitað leifar af umræðunni sem við áttum hér um skilyrðingafrumvarpið svokallaða.

Hitt er svo alveg ljóst að það eru stjórnmálaöfl sem hafa þá skoðun að nauðsynlegt sé að hafa ákveðna samkeppni, liggur mér við að segja, á millum þeirra sem eru innan almannatryggingakerfisins og hinna sem eru á vinnumarkaði, að í því felist hvati til að menn reyni að rífa sig upp og fara út á vinnumarkaðinn. Svona hefur þetta verið orðað.

Mín skoðun er sú, af því að ég þekki svolítið til þessara mála, eins og hver maður sem kominn er á minn aldur, ég þekki þessi dæmi úr umhverfi mínu. Menn eru ekki að leika sér að því, ekki þekki ég til þess, að vera á innan kerfisins til að hafa það gott. Hafa menn það gott á 172 þús. kr. eftir skatt á mánuði? Nei, menn hafa það ekki gott. Ég held að hver einasti maður, að minnsta kosti langflestir, sem ættu kost á öðru, mundu vilja það.

Aðrir eru þessarar skoðunar. Ég veit ekki hvað hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hafði fyrir sér þegar hún talaði um að það væru sex til átta milljarða bótasvik, það eru ansi háar upphæðir. Ég er sannfærður um að eins og í öllum kerfum er alltaf eitthvað um að menn spili þar á milli, en fjandinn hafi það að það séu sex til átta milljarðar.

Um forgangsröðun að endingu. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, til að forgangsröðunin sé á hreinu, lokaði sex sendiráðum og sendiskrifstofum og hún varði kjör þeirra verst settu með þeim hætti sem ég hef fyrr lýst.