145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:39]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2016 er komið til 3. umr. ætla ég að nýta mér þær 15 mínútur sem ég má tala um það í fyrri ræðu og fara aðeins yfir þá breytingartillögu sem minnihlutaflokkarnir flytja að þessu sinni. Hún er mjög einföld. Hún er einfaldlega um það að aldraðir og öryrkjar fái afturvirkar hækkanir eins og allir aðrir þjóðfélagshópar í landinu. Ég segi afturvirkar hækkanir, það má kannski segja að það séu ekki afturvirkar hækkanir á launamarkaði því að samið var um laun frá ákveðnum tíma en þannig er þetta.

Hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, sagði í morgun í aldeilis dæmalausri ræðu að 69. gr almannatryggingalaga væri kjararáð og kjaradómur þeirra hópa sem þiggja bætur. Hún talaði um að það væri skýrt ákvæði í þeirri lagagrein um hvernig þessar bætur skyldu hækka. Svo fjallaði hv. þingmaður um að í forsendum fjárlaga væri gert ráð fyrir 9,4% hækkun en þegar ný hagvaxtarspá hefði komið út varð ljóst að svigrúmið væri meira, eins og hún kallaði það í ræðunni, og þá var gert ráð fyrir 9,7% hækkun. Virðulegur forseti, þetta þýðir með öðrum orðum að í meðförum fjárlaganefndar út frá nýrri hagvaxtarspá voru lífeyristryggingar hækkaðar um 0,3 prósentustig. Hvaða upphæða skyldi það nú vera? Það eru 300 kr., segi ég og skrifa.

Þessi ríkisstjórn hælir sér alltaf af því að hafa á upphafsmánuðum sínum sumarið 2013 tekið til baka einhverjar skerðingar frá síðasta kjörtímabili. Það er kristaltært að frá og með þeirri aðgerð högnuðust ekki þeir sem minnst hafa heldur þeir sem gátu verið á vinnumarkaði eða höfðu fjármagnstekjur, í raun högnuðust aldraðir sem voru best settir. Þá höfðu greiðslur almannalífeyristrygginga hækkað um 6 þús. kr. í tíð núverandi ríkisstjórnar fram til 1. janúar á þessu ári. Ég hef alltaf sagt að þær hafi hækkað um 4 þús. kr. en það er ekki rétt, upphæðin er nánar tiltekið 3.496 kr. sem þær hækkuðu í upphafi þessa árs. Í tíð núverandi ríkisstjórnar til þess dags sem við ræðum nú þetta mál hafa þessar bætur hækkað um 9.496 kr. Það er allt og sumt.

Má ég minna á það, virðulegi forseti, að 1. janúar þegar þessar 3.496 kr. komu til aldraðra og öryrkja — það er ekki nema furða að maður fari hálfpartinn að hlæja yfir upphæðinni — var matarskatturinn hækkaður á sama tíma í boði ríkisstjórnarflokkanna og ýmislegt annað hefur hækkað. Þannig fáum við út 172 þús. kr. í dag. Það sem við erum að gagnrýna stjórnina mest fyrir er að hafa ekki fallist á að gera eins og við gerðum sumarið 2011 þegar samið var um kaup og kjör í landinu. Þá var 8% hækkun strax tekin á miðju sumri plús 51 þús. kr. eingreiðsla. Þá sýndum við í raun og veru fyrst lit eftir erfiðleikaárin okkar og hinn blóðuga niðurskurð um allt þjóðfélag. Við sögðum alltaf að um leið og áraði betur skiluðum við þessu til baka. Það er það sem er grunnurinn í málflutningi okkar núna. Af hverju í ósköpunum tekur ríkisstjórnin þann pól í hæðina að fara í stríð við aldraða og öryrkja, okkar minnstu bræður og systur, með því að neita afturvirkum hækkunum?

Í öllu fjárlagafrumvarpinu og í fjáraukalögunum er verið að setja inn peninga til að deila út til ríkisstofnana til að þær geti greitt starfsmönnum sínum afturvirkar hækkanir.

Virðulegi forseti. 9,7% ofan á tæplega 172 þús. kr. eru rétt um 17 þús. kr. fyrir skatt. Um hvaða upphæð erum við að ræða? Við erum að ræða um 11–12 þús. kr. eftir skatt sem hefðu verið greiddar frá 1. maí, sjö mánuði ársins, um 77–78 þús. kr. Ég man ekki alveg töluna sem hækkanir kjararáðs sögðu til um fyrir ráðherra en ég held að upphæðin hafi verið töluvert hærri. Eftir 1. janúar nk. verður upphæðin 186 þús. kr. Það er allt of sumt. Það segir sig sjálft, það lifir enginn á því. Um þessi mál standa þessar miklu deilur milli ríkisstjórnarflokkanna, stjórnarþingmanna og okkar sem erum í minni hluta, akkúrat um þessa tölu.

Hver er staða ríkissjóðs á þessu ári þegar loksins er búið að telja inn réttar arðgreiðslur frá Landsbankanum? Gert er ráð fyrir 22 milljörðum í fjáraukalagafrumvarpinu, en ég spái því og hef sagt það áður að þeir verði 32–33. Ég ætla að leyfa mér að halda hér á síðustu dögum þingsins að þegar við skoðum ríkisreikning fyrir þetta ár verði arðgreiðslurnar nær 35 milljörðum.

Hér hefur mikið verið talað um hvað þetta kostar. Þetta kostar um 10% af áætluðum fjárlagaafgangi sem ég hef talað um. Menn tala um 6 milljarða sem kostnaðarauka ríkissjóðs vegna þessa. Það er ekki rétt vegna þess að ríkissjóður fær skatt af þessum greiðslum þannig að nettó eru þetta ekki nema um 4 milljarðar kr. Aldraðir og öryrkjar eru um 47 þúsund talsins þannig að þetta fer nokkuð saman.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan um þessa tæplega 3.500 kr. hækkun í upphafi þessa árs þá breyttist ýmislegt annað en matarskatturinn. Það hefur orðið stórhækkun á húsaleigu og mjög margir öryrkjar eru í leiguhúsnæði. Skiljanlega hefur fólk með slíkar smánarbætur ekki efni á að kaupa sér húsnæði, hvað þá að reka það o.s.frv. Við getum rétt ímyndað okkur þegar þessar 186 þús. kr. eru teknar út og greidd húsaleiga og ýmislegt sem allir þurfa að greiða — það verður ekki mikið eftir.

Virðulegi forseti. Ég hitti öryrkja í erfidrykkju í gær í jarðarför þar sem hann lýsti kjörum sínum. Hann átti hámark 25–30 þús. kr. eftir í upphafi mánaðar til að lifa af. Viðkomandi tók sem dæmi að hann þyrfti að fá lyf sem einhverra hluta vegna féllu ekki undir greiðslukerfi lyfja sem við höfum talað um, níu lífsnauðsynleg lyf. Þessi öryrki þurfti að borga um 10 þús. kr. fyrir þau. Finnst okkur þetta boðlegt, virðulegi forseti?

Því miður hefur umræðan sem við höfum tekið hér um þessi mál ekki náð til stjórnarsinna. Sem dæmi eru nú við 3. umr. fjáraukalaga ekki margir hér í salnum að takast á um þetta mál eða útskýra fyrir okkur hvers vegna hækkanirnar voru ekki afturvirkar. Mér er það algjörlega hulin ráðgáta af hverju ríkisstjórnin, með þennan mikla afgang af fjárlögum þessa árs, hefur farið í þessa aðför gegn öldruðum og öryrkjum og neitað þeim um þær afturvirku hækkanir sem við erum að tala um og öll deilan snýst um. Það er alveg með ólíkindum.

Virðulegi forseti. Auglýsing Öryrkjabandalagsins er mjög sláandi. Hún er jafnframt mjög góð. Ég þakka Öryrkjabandalaginu fyrir að setja þetta fram á jafn skilmerkilegan hátt og birtist í blöðum að ég held í gær. Ég sá auglýsinguna í Fréttablaðinu en mér skilst að hún hafi birst í fleiri blöðum. Þar er sagt að samkvæmt könnum Gallups telji 95,4% Íslendinga að lífeyrisþegar eigi að fá jafn háa eða hærri krónutöluhækkun kjara og lægstu laun í nýliðnum kjarasamningum. Mér kemur þetta ekki á óvart vegna þess að ég held að það sé staðreynd að Íslendingar séu flestir jafnaðarmenn. Íslendingar eru þannig að þeir vilja að sínir minnstu bræður og systur sem hafa það verst fái hækkun, eins og þeir segja í auglýsingunni hjá Öryrkjabandalaginu, með leyfi forseta:

„Höfum þetta á hreinu“ og svo kalla þeir það stuttan minnislista handa stjórnvöldum frá okkur sem treystum á lífeyri almannatrygginga til framfærslu.

„Við sem það getum förum snemma á fætur og vinnum fullan vinnudag.

Mörg okkar urðu öryrkjar af því að vinna slítandi láglaunastörf áratugum saman.

Hver króna sem við þénum í laun getur valdið skerðingu lífeyriskjara.

Við greiðum skatt af lífeyrinum.“

Svo er fjallað um þá hækkun sem var í upphafi þessa árs, 3.496 kr. eftir skatta, og að eftir hækkun 1. janúar 2016 verði tekjur þeirra um 186 þús. kr. á mánuði eftir skatta. „Á því lifir enginn mannsæmandi lífi“, eða teljum við það, virðulegi forseti? Telur hv. þm. Páll Jóhann Pálsson að einhver geti lifað af 186 þús. kr. á mánuði eftir skatta? Við skulum nefnilega hætta að tala um upphæðina eins og hún er fyrir skatta vegna þess að hvorki við alþingismenn né aldraðir eða öryrkjar lifa af þeirri upphæð sem ríkissjóður tekur til sín í formi skatta. Þetta snýst allt um útborguð laun. Hv. þm. Karl Garðarsson, sem er í salnum, ætti líka að hugleiða þessi atriði eins og hv. þm. Páll Jóhann Pálsson. Um þetta vænti ég að við séum öll sammála. Hvers vegna hafa stjórnarþingmenn ekki barið í borðið í sínum þingflokkum og sagt: Ráðherrar góðir, forystumenn okkar, við getum ekki unað við það að aldraðir og öryrkjar fái ekki afturvirkar hækkanir eins og allir aðrir í þjóðfélaginu? Við verðum að greiða þetta út. Sem betur fer árar það vel núna hjá okkur Íslendingum að það er borð fyrir báru.

Virðulegi forseti. Að síðustu ætla ég að fjalla örlítið um þau orð sem féllu í ræðustól Alþingis í morgun og fara núna um netmiðlana á ljóshraða, þ.e. ræða hv. formanns fjárlaganefndar, Vigdísar Hauksdóttur, þar sem hún sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að mér finnst óeðlilegt að lægstu laun og bætur séu sama krónutala, mjög óeðlilegt. Það kostar að vera í vinnu, það kostar að hafa börn á leikskóla, þannig að ég lýsi nokkurri ábyrgð á verkalýðshreyfingu landsins fyrir að hafa ekki barist betur fyrir kjörum þeirra sem lægstu launin hafa.“

Svo er talað um að hátt í 10% vinnubærra manna séu skráðir öryrkjar á Íslandi. Virðulegi forseti, þetta er tóm þvæla. Það er mjög skrýtið að menn skuli voga sér að setja fram slíkar upplýsingar og þessar tölur. Ef þetta er það sjónarmið sem hefur ráðið för hjá hv. stjórnarþingmönnum þegar þeir láta stjórnarherrana sína neyðast til, ég leyfi mér að fullyrða að menn neyðist til þess, að fella tillögur okkar hér að viðhöfðu nafnakalli um þessar afturvirku hækkanir — ég hef sagt hér ýmis orð um skömm þeirra hvað það varðar en ég ætla ekki að gera það núna, ég ætla ekki að ítreka það enn einu sinni. Mér hefur fundist mjög slæmt að vera hér í ræðustól og tala um ýmislegt sem er að í þessum málum og skamma stjórnarþingmenn og annað sem ég hef sagt í því sambandi. Mér er svo gjörsamlega misboðið hvað þetta varðar. Þess vegna hafa þessar miklu og hörðu deilur verið á Alþingi við 2. og 3. umr. fjáraukalaga og svo vegna fjárlaga 2016.

Ríkisstjórnarflokkarnir ætla að halda áfram vegna þess að á árinu 2016 munu allflestir launþegar í landinu fá 5,5% launahækkun. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár er ekki gert ráð fyrir því að aldraðir og öryrkjar fái hækkun á sama tíma. Það var þess vegna sem ég sagði í gær í atkvæðaskýringum að það væri ekki hægt að túlka lögin á þennan hátt og ríkisstjórnin gæti ekki hagrætt hlutunum svona. Í raun og veru gæti ríkisstjórnin í þessu tilfelli barist fyrir því að skrifa ekki undir samning fyrr en 2. janúar hvers árs vegna þess að þá liðu 12 mánuðir óbættir hjá öldruðum og öryrkjum, ef menn ætla að túlka 69. gr. almannatryggingalaga á þann hátt sem ég tel rangt. Það er ekkert sem segir að þetta þurfi alltaf að vera um áramót. Á hinn bóginn væri ákaflega slæmt fyrir ríkissjóð, sérstaklega núverandi stjórnarherra, ef menn væru að semja um þessar mundir um kaup og kjör vegna þess að þá kæmu hækkanirnar miðað við þeirra túlkun til útborgunar 12 dögum seinna. Virðulegi forseti, þetta er rökstuðningur sem er ekki hægt að taka undir. (Forseti hringir.) Það er verið að notfæra sér þarna einhverja vitleysu. (Forseti hringir.) Menn hafa hafnað í einhverjum vitleysisskilningi og eru fastir í þessari þvermóðsku.