145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að svo sé. Ég ber þá von í brjósti að það renni upp fyrir stjórnarþingmönnum hver raunin er og þeir sjái ljósið hér við atkvæðagreiðslu á morgun við 2. umr. fjárlaga og viðurkenni það bara að þeir hafi lent í einhverju fúafeni, að einhverjir hafi tekið fyrir þá ákvörðun sem er kolröng og að menn samþykki afturvirka hækkun til öryrkja og aldraðra. Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það, væntanlega umræðu við nafnakall á morgun, að þeir ætli að halda þessu áfram. Ég held að öll umræðan hér hafi sýnt vel fram á annað. Hv. þingmaður ræddi um það sem fram kom í morgun hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að hátt í 10% fólks hér á landi væru skráð öryrkjar. Ég verð bara að viðurkenna að ég hef ekki haft tækifæri til að skoða þetta dæmi og hef ekki gögn um það, en ég segi fyrir mitt leyti að ég var svo rasandi hissa á þessari umræðu í morgun. Mér datt í hug eitt augnablik að ef þetta eru (Forseti hringir.) sjónarmiðin sem lögð hafa verið fyrir stjórnarþingmennina og þeir hafa ekki kynnt sér hlutina betur, óbreyttir þingmenn, þá skil ég vel af hverju ríkisstjórnin er komin í þetta fúafen.