145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna og baráttuna hér undanfarna daga. Ég get ekki litið öðruvísi á en að þær tillögur sem fréttir eru fluttar af að séu komnar frá ríkisstjórninni, vegna 3. umr. fjárlaga, um meira en einn milljarð króna til Landspítalans, séu sannarlega tengdar því að málflutningur okkar hér í stjórnarandstöðunni hafi verið að skila sér og það sé að minnsta kosti komið til móts við þær óskir sem stjórnendur spítalans settu fram. Ég vona líka að komið sé til móts við sjónarmið í ríkisútvarpsmálinu. En tekur þingmaðurinn ekki undir að það sé kannski mikilvægast, af þeim atriðum sem við höfum verið að halda stjórnvöldum við efnið í, að aldraðir og öryrkjar fái þá afturvirku hækkun sem þeim mun gefast kostur á að styðja í breytingartillögu okkar varðandi fjáraukalagafrumvarpið? Að þar sé þessi mikilvæga spurning um jafnræði fólksins í landinu, að aldraðir og öryrkjar fái kauphækkanir frá sama tíma og aðrir?

En sem sagt: Ég fagna því, ef þetta er rétt sem frá hefur verið greint, að náðst hafi fram milljarður í Landspítalann. Það munar nú um minna til að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem þar eru. En hefur þingmaðurinn trú á því að ríkisstjórnin muni sömuleiðis koma til móts við þau sjónarmið sem við höfum haft hér uppi um aldraða og öryrkja og þá afturvirku hækkun sem hefði auðvitað átt að vera í þessu fjáraukalagafrumvarpi?