145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[18:05]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna hér í dag en finnst þó nauðsynlegt að koma aðeins upp og lýsa yfir ánægju með að þetta mál sé nokkurn veginn í höfn. Ég tek undir það sem hv. þm. Oddný Harðardóttir sagði í ræðu sinni. Hún fór ágætlega yfir þetta. Mér finnst sérstaklega mikilvægt að halda því til haga að þetta mun verða flókið og strembið verkefni og það þarf úthald í það. Vinnubrögðin í tengslum við fjárlagagerðina vekja kannski ekki beinlínis vonir um að þetta muni allt ganga snurðulaust fyrir sig, bara svo að það sé sagt. Í sjálfu sér kemur ekkert í veg fyrir fagleg og góð vinnubrögð strax í dag en það er svolítið eins og menn séu að bíða eftir þessum lögum og þá ætlum við aldeilis að standa okkur vel; þessi agi sem við erum alltaf að kalla eftir, að geta planað fram í tímann, séð hlutina fyrir og annað slíkt svolítið eins og það eigi bara að detta af himnum ofan. Þetta minnir mig stundum á umræðuna um að hrunið eigi að hafa vakið okkur upp af svefni eins og það hafi verið eitthvað óvænt, en við erum í raun þjóðin sem olli hruninu en við erum enn sama þjóðin og við getum alveg staðið hér í nýju hruni eftir einhver ár. Það þarf virkilega viðhorfsbreytingu til og ég held að það eigi við í þessu máli, það þarf viðhorfsbreytingu í pólitíkinni.

Ég held að embættismenn séu almennt ánægðir með þetta en ég skal ekki segja hvort þau vinnubrögð sem við sjáum stundum, sem ég er ekki ánægð með, séu úr stjórnsýslunni, kannski að einhverju leyti en mér finnst það aðallega vera í pólitíkinni. Við erum til dæmis að ræða fjárlög, væntanlega í kvöld eða á morgun, fyrir 2016. Við erum komin viku fram úr starfsáætlun og það eru komnar breytingartillögur. Það er auðvitað ekki svona sem við viljum hafa þetta.

Ég held að við þurfum samt sem áður að reyna að fara inn í þetta verkefni jákvæð. Þetta þarf að takast, ég held að allir séu sammála um það. Við þurfum kannski líka að vera meðvituð um að það verða örugglega gerðar lagabreytingar þegar fram í sækir. Þetta er ekki alveg fullkomið eins og það er. En við eyddum mikilli vinnu í þetta, þetta var mjög gaman og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu verkefni þó að það hafi þýtt meira álag á fjárlaganefndina, nóg er nú samt oft og tíðum. En þetta var alveg þess virði.

Björt framtíð er á nefndaráliti meiri hlutans og við gerum ekki ágreining um 7. gr. Ég sé ekkert athugavert við hana en eins og ég segi: Ef í ljós koma annmarkar á þessum lögum finnst mér við þurfa að vera opin fyrir því að breyta. En það mikilvægasta er að nú þegar þessi lög taka gildi þá einbeitum við okkur að því að uppfylla þau, bæta vinnubrögðin. Við getum í því samhengi horft til frænda okkar í Svíþjóð en við þurfum líka að líta í eigin barm og gera þetta eins og manneskjur, svo að það sé sagt. Og ég held að við eigum alveg að geta gert það.

Mér finnst það líka ánægjuefni að gert sé ráð fyrir auknum fjárveitingum til ráðuneytanna vegna þessa verkefnis. Innleiðing á þessum lögum mun kosta og mér finnst að við eigum ekki að sjá eftir þeim peningum. Við munum spara til framtíðar, held ég. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki enn þá alveg séð fyrir mér hvernig atkvæðagreiðslur og annað slíkt fer fram hér í þinginu vegna þess að það er töluverð breyting á því. Það er yfirstjórnar þingsins að kljást um það, ég ætti kannski ekki að hafa áhyggjur af því. Ég er heilt yfir mjög ánægð með þetta mál, a.m.k. tvær ríkisstjórnir hafa haft það á sínu forræði. Það er góð samvinna um það í fjárlaganefnd og ég vil þakka fyrir það og er ánægð með að þetta verði að lögum nú fyrir jól.