145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[18:10]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að segja að hv. formaður nefndarinnar talaði um að allir væru sammála þessu frumvarpi. Það er ekki alveg rétt. Ég er með sérálit og hef sett fram ákveðnar efasemdir og gerði grein fyrir þeim í sérstakri breytingartillögu sem var felld.

En það er margt gott í frumvarpinu og eins og hefur komið fram hefur það farið í gegnum marga fjármálaráðherra og er að stóru uppleggi eins og lagt var af stað með, þó eru ákveðin atriði sem við í Vinstri grænum teljum að hafi breytt svo miklu að við teljum okkur ekki stætt að vera á sameiginlegu nefndaráliti.

Ég ætla að byrja á því að fara aðeins yfir það sem kemur að grunngildum fjármálastefnunnar og fjármálaáætlunarinnar. Við vildum að inn í frumvarpið færi þar sem talað er um að hið opinbera geti ávallt staðið undir öllum skuldbindingum sínum að uppfylltum öllum skilyrðum sjálfbærrar þróunar. Í skilgreiningu frumvarpsins á sjálfbærni er einungis horft til efnahagslegra þátta en þegar við horfum til alþjóðlegrar skilgreiningar, m.a. Sameinuðu þjóðanna, þá er líka horft til félagslegra og umhverfislegra þátta. Við hefðum viljað sjá frumvarpið lagað að þeirri viðurkenndu alþjóðlegu skilgreiningu og lögðum til þá breytingu, þ.e. að frumvarpið tæki til efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta þegar horft væri til sjálfbærni opinberra fjármála. Með samþættingu þessara þriggja þátta þegar við tökum ákvarðanir vísum við um leið til þess að hver kynslóð lifi ekki á kostnað annarrar.

7. gr. hefur verið helsta bitbeinið og kom inn núna hjá núverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Markmiðið þar er að okkar mati mjög þröngt og ekki einungis að okkar mati, það eru fleiri sem hafa áhyggjur af því. Þar er bæði verið að fjalla um A-hluta ríkissjóðs og A-hluta sveitarfélaga og sveitarfélögin standa ekki nægilega vel akkúrat núna og það vekur strax áhyggjur um að þetta sé of þröngt. Talað er um að heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli verði að vera undir 2,5% af landsframleiðslu og að heildarskuldir að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum séu lægri en sem nemur 30% af vergri landsframleiðslu. Ef skuldahlutfallið, samkvæmt því sem ég var að lesa áðan, er hærra en þessi 30% skal sá hluti sem umfram er lækkaður að meðaltali á þriggja ára tímabili um að minnsta kosti 5% á hverju ári. Þetta þótti okkur í Vinstri grænum of stíft þar sem svigrúmi við beitingu ríkisfjármálanna til skynsamlegrar hagstjórnar og sveiflujöfnunar eru settar of þröngar skorður og við vildum og lögðum til breytingu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Markmið fjármálastefnu og fjármálaáætlunar um afkomu og efnahag hins opinbera“, þ.e. A-hluta ríkisins og A-hluta sveitarfélaga, „samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. skulu sett fram opinberlega og með bindandi hætti af ríkisstjórn í upphafi hvers kjörtímabils eða í upphafi starfstíma ríkisstjórnar ef stjórnarskipti verða á öðrum tíma. Skulu markmiðin innihalda skilyrði um jákvæðan heildarjöfnuð yfir meðallangt tímabil, tilgreina hámark hallarekstrar á hverju einstöku ári og það hámark heildarskulda hins opinbera sem að er stefnt.“

Þarna erum við í rauninni að taka út prósenturnar og það sem við teljum þrengja um of að í þessu. Það hefur komið fram, til að mynda hjá gestum nefndarinnar, að tengja ætti hallaviðmiðin við sveifluleiðréttan halla þannig að það væri talið heppilegra og þessi 30% viðmið þekkjast hvergi í kringum okkur. Þau eru stífari heldur en Maastricht-skilyrðin sem gera ráð fyrir 60%, þannig að þessi skuldahlutfallaregla upp á 30% er of þröng og ósveigjanleg og í sjálfu sér enginn beinn rökstuðningur færður fram vegna hennar. Síðan var bent á það þegar við erum að tala um velferðarhámark fyrir samfélagið að skuldahlutfallaviðmiðið mundi ráðast af horfum um vaxtakjör hins opinbera til millilangs tíma.

Ég ætla ekki að fara meira ofan í þetta nema segja að við ræddum töluvert um fjármálaráð og hlutverk þess. Ég hef áhyggjur af því að það verði ekki nógu sjálfstætt. Það er í rauninni ekki búið að finna því farveg, hvar það eigi að eiga heima eins og maður segir, eða hvernig það á beinlínis að vinna. Ég hefði viljað endurvekja Þjóðhagsstofnun sem ég tel að skipti miklu máli fyrir góða hagstjórn.

Ég segi eins og hér var sagt áðan, þetta er mjög flókið frumvarp í mörgum liðum, mjög ítarlegt. Þetta varðar ekki aðeins ráðuneytin, þetta varðar fjársýsluna og þetta varðar allar undirstofnanir ríkisins og sveitarfélaganna líka. Ég hef áhyggjur af því að það séu of miklar væntingar um það að þetta frumvarp leysi öll vandamál og það er líka mikilvægt að fólki sjái að þetta mun ekki taka gildi á næsta ári. Þetta mun í raun ekki taka gildi fyrr en kannski á kosningaári eða árið eftir það, þ.e. á næsta kjörtímabili. Við höfum verið að ræða fjárlög fyrir næsta ár sem byggja eðlilega á þeim lögum sem eru í gildi núna, þannig að það er töluvert í að þetta fari beinlínis að virka. Mér hefur þótt úti í samfélaginu, hjá Samtökum atvinnulífsins og fleirum, vera heldur miklar væntingar um að þetta leysi eitthvað.

Það eru nokkur atriði varðandi meðferðina einmitt hér á þingi. Það stóð alltaf til að við fengjum hálfgerðan leikþátt, ef við getum talað um það, þar sem við færum lið fyrir lið í gegnum það hvernig við bærum okkur að þegar við óskuðum t.d. eftir því að gera breytingu á einhverjum lið innan ráðuneyta, til að mynda innan menntamála, innan háskóla eða innan menningargeirans eða innan heilbrigðisgeirans, af því að framsetningin er að breytast mjög mikið. Það liggur eiginlega ekki alveg fyrir og ekki heldur hvernig á að fara með þetta á þingi, hvernig atkvæðagreiðslur og ýmislegt fleira fer fram. Mér finnst ég að minnsta kosti ekki vera nægjanlega vel upplýst um það. Það var í raun búið að lofa því að þetta yrði gert en það gerðist aldrei. Við erum að tala um að að vori setjum við fram heildarramma, sem er í sjálfu sér ágætt, hann ræðum við, förum yfir heildartölur í hverjum málaflokki og að hausti er þetta niðurbrot á hvern einasta málaflokk og inn á stofnanirnar og við getum í rauninni engu breytt nema innan rammans.

Ef minni hlutinn kysi að leggja fram töluverðar breytingar á einhverju þyrfti nánast að leggja fram nýtt frumvarp og til þess hefur þingið ekki burði, þ.e. það þarf að styrkja alþingismenn í minni hluta til að hægt sé að framkvæma slíkt. Það þarf að kostnaðarmeta og áhrifameta alla þessa þætti og það er ekki hægt eins og staðan er núna. Það hefur auðvitað verið tekin umræða um það og fólk viðurkennir almennt að það sé hluti af þessum vanda.

Mér finnst mjög margt gott í frumvarpinu en það eru líka á því vankantar sem ég hef miklar áhyggjur af. Fyrst og síðast hef ég áhyggjur af því að fólk hafi of miklar væntingar um að þetta leysi eitthvað vegna þess að við erum með fjárlög sem eru því miður gjarnan brotin. Eins og við fórum í gegnum í umræðunni áðan eru þau ekki virt og komið með liði í fjáraukalög sem eiga alls ekki heima þar, þannig að það er enginn sem segir að þetta leysi t.d. þann vanda.

Ég ætla ekki að ræða þetta neitt frekar. Ég geri ekki ráð fyrir því að það verði eindreginn stuðningur í hópi Vinstri grænna varðandi þetta. Þar sem breytingartillögur okkar fengu ekki hljómgrunn geri ég ráð fyrir því að við styðjum það ekki að öllu leyti a.m.k.