145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

skattar og gjöld.

373. mál
[18:48]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel algjöran óþarfa að svara þessari (Gripið fram í: Nei, svaraðu.) spurningu vegna þess að við erum að bera hérna saman annars vegar framtöl einstaklinga og hins vegar framtöl fyrirtækja. Fyrirtæki búa við allt aðrar aðstæður, hafa til dæmis möguleika á því að draga frá tekjum sínum vexti og fyrningar sem einstaklingar hafa ekki þannig að hér er um allt aðrar aðstæður að ræða.

Það eru hins vegar, eins og ég upplýsti um áðan úr bréfaskiptum mínum við ríkisskattstjóra, afar fá tilfelli þar sem þetta kemur til skattlagningar. Það sem meira er, ef einstaklingurinn fellur frá og húsnæði kemur til arfs greiða erfingjar erfðafjárskatt af þessum tilteknu eignum miðað við fasteignamat og selja án nokkurs söluhagnaðar. Hér er um draug að ræða sem hv. þingmaður virðist ekki skilja sem situr eftir eftir að verðbreytingastuðullinn datt út. Það er það sem ég er að reyna að laga hérna en eins og ég sagði áðan, nefndin hafði ekki fyrir að rannsaka þetta mál og þess vegna legg ég til að þetta verði fellt brott eða afturkallað með þeim tækjum og tólum sem heimiluð eru á Alþingi.

Virðulegi forseti. Ég hef þetta ekki lengra.