145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

sala fasteigna og skipa.

376. mál
[18:57]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að reifa aðeins sögu málsins. Nefndin ákvað að leggja fram þetta frumvarp til að bregðast við ákveðnum atriðum en athygli nefndarinnar var vakin á ákveðnum atriðum sem mætti bæta varðandi ný heildarlög um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015, sem tóku gildi 20. júlí 2015. Reynslan hefur leitt í ljós ýmis tækifæri til að bæta löggjöfina en í frumvarpi nefndarinnar er aðeins brugðist við þeim þáttum sem teljast mjög aðkallandi.

Við vinnslu frumvarpsins hafði nefndin samráð við hagaðila. Engu að síður óskaði einn hv. nefndarmaður eftir því að málið yrði kallað aftur til nefndar til að ræða málið frekar. Eftir þann fund nefndarinnar ákvað nefndin að leggja málið fram aftur óbreytt eftir þær umræður og því er það komið hingað í sömu mynd, óbreytt frá 1. umr.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að orðlengja mjög mikið um þetta en vil tæpa á aðalatriðum. Verið er að bregðast við þeirri þörf að búa til ákveðna starfsheimild fyrir þá sem eru nemendur í námi til löggildingar á sölu fasteigna og skipa og opna á það að þeir geti unnið með ákveðnum skilyrðum eftir að hafa lokið einni önn með fullnægjandi meðaleinkunn og aflað sér fullnægjandi starfsreynslu og geti þannig sinnt ákveðnum verkefnum sem eru skýrt tekin fram. Heimildin er háð því skilyrði að verkefnin séu unnin undir ábyrgð og eftirliti fasteignasala og gildir í tvö ár frá því að hún er veitt.

Síðan eru einnig tvö tímabundin bráðabirgðaákvæði til að bregðast við því að einhverjir aðilar höfðu ekki haft ráðrúm til að komast í námið eða sækja um námið og þeim gefinn ákveðinn frestur til að hefja námið. Það kemur fram að það þurfi að verða eigi síðar en 1. september 2016. Svo er í 6. gr. fjallað um þá aðila sem hafa mjög háan starfsaldur, 20 ár við þessi störf og hafa náð 50 ára aldri, þeir geta hlotið skráningu á undanþágulista. Engu að síður þurfa þeir sem ætla að vinna hvort sem er undir varanlegu ákvæði fyrir nemendurna eða bráðabirgðaákvæðinu fyrir hina tvo hópana, að vinna undir handleiðslu og á ábyrgð löggilts fasteignasala og að tilteknum skýrt afmörkuðum verkefnum. Þetta var að mati nefndarinnar til bóta og nauðsynlegt til að ná fram því markmiði sem er vilji nefndarinnar að hér sé hvati til að fara í löggildingarnám og sem flestir sem sinna þeim verkefnum að leiða saman kaupendur og seljendur við þessa stóru ákvörðun, kaup eða sölu fasteignar, séu með eins góða menntun og undirbúning og hægt er. Það er í þágu neytendaverndar og til að ná fram markmiðum laganna.