145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

sala fasteigna og skipa.

376. mál
[19:35]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann nú að vera að einfaldari leið í þessu máli hafi verið sú að hugleiða 4. gr., sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur lesið hér, og kanna hvort nefndin hafi farið offari þar. Tilgangur nefndarinnar, þegar málið var unnið þar í ágætri vinnu, var ekki að tryggja stöðu löggiltra fasteignasala, ekki tryggja stöðu starfsfólks, heldur svo sannarlega að tryggja rétt neytenda, því að þessi löggjöf er fyrst og fremst og aðeins neytendalöggjöf, hún á að tryggja rétt neytenda. Það kann að vera að sá gagnmerki viðskiptajöfur, fyrrverandi forstjóri Tryggingafélags, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hafi lög að mæla, og mætti benda á 4. gr., að gera hlutina með einföldum hætti. En hér er sennilega verið að skjóta með miklum höglum úr fallbyssu og hefði verið nær að setjast niður í rólegheitum en ekki rjúka upp til handa og fóta eins og þarna var gert á viku eða tíu dögum. Það styður enn og frekar mál mitt að þetta mál er ógæfumál, ógæfufrumvarp og í skásta falli gagnslaust, í versta falli hættulegt.