145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsnæðisbætur.

407. mál
[20:07]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir orð þingmannsins. Það sem hefur líka komið margoft fram í máli hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur er hversu mikilvægt er, skiljanlega — núna í kvöld er verið að mæla fyrir þremur málum, eitt mál er þegar í velferðarnefnd — að þessi mál séu skoðuð saman í heild, samspil þeirra og áhrifin þvert yfir af þessum miklu frumvörpum. Það sem við erum að reyna að ná fram með þessu er að búa til nýtt kerfi, kerfi sem á vonandi eftir að gera það sem hv. þingmaður talaði hér um, að jafna stuðning milli ólíkra búsetuforma. Að sjálfsögðu er þetta frumvarp hluti af framlagi stjórnvalda til að greiða fyrir kjarasamningum. Við stuðlum áfram að stuðningi við þá sem treysta til dæmis á framfærslu í gegnum hið opinbera eða frá sveitarfélögunum en teygjum okkur líka í átt til þeirra sem eru efnaminnstir á vinnumarkaðnum, með lægstu tekjurnar, svo að þeir hafi líka möguleika á að fá stuðning eins og þeir fengju ef þeir væru í eigin húsnæði og hefðu tekið lán til að afla sér þess.