145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsnæðisbætur.

407. mál
[20:10]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Hv. þingmaður nefndi að við hefðum lagt áherslu á að gera tvennt, auka framboðið og styrkja eftirspurnarhliðina. Húsnæðisbæturnar snúast um að styrkja eftirspurnarhliðina. Við erum hins vegar með tvö önnur mál sem birtast í fjárlagafrumvarpinu og tekjuöflun af bandormi fjármálaráðherra þar sem við styðjum framboðshliðina. Það er von okkar, eins og kemur fram í fylgigögnum með frumvarpinu um almennu íbúðirnar, að það muni sameiginlega leiða til fjölgunar íbúða og um leið til lækkunar leigu. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að fylgjast vel með því að lækkun á fjármagnstekjuskattinum og húsnæðisbætur skili sér til þeirra sem þurfa á að halda og leiði ekki til hækkunar á leigu sem er eitt af því sem menn hafa nefnt og haft áhyggjur af. Það er hins vegar að mínu mati (Forseti hringir.) mjög mikilvægt að við gerum hvort tveggja, eflum framboðið og styðjum (Forseti hringir.) við eftirspurnarhliðina við leigjendurna sjálfa.