145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsnæðisbætur.

407. mál
[20:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur fyrir framsögu hennar. Þetta var svolítið hratt. Það var svolítill pakki að taka við þessu, enda er um stórt og mikið frumvarp að ræða. Ég vona að hæstv. ráðherrann virði það við mig að það hafa verið langir dagar hérna og klukkan er orðin svolítið margt.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um. Fyrst það sem hæstv. ráðherra og hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir ræddu hér í lokin, þ.e. þær áhyggjur sem heyrst hafa af því hvort eitthvað verði gert til að hækkun á húsnæðisbótum fari ekki út í leiguverðið. Mig langar að biðja ráðherrann að koma aðeins betur inn á það hvort gripið verði til einhverra ráðstafana varðandi það og þá hverjar þær séu.

Svo er annað sem mig langar að spyrja um og það kemur kannski inn á breytingu á öðrum lögum, þ.e. í 32. gr. varðandi tekjustofna sveitarfélaga og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Það hefur verið þannig að Reykjavík borgar ekki sérstakar húsaleigubætur til fólks þótt það uppfylli jafnvel tekjumörkin ef það leigir í félagslegu húsnæði, eins og til að mynda hjá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins. Hefur sá vinkill eitthvað verið skoðaður inn í vinnuna varðandi þessar breytingar? Var það rætt í viðræðunum við sveitarfélögin hvort þetta mundi eitthvað breytast? Sum sveitarfélög (Forseti hringir.) greiða leigjendum Brynju hússjóði sérstakar húsaleigubætur en önnur, eins og Reykjavíkurborg, gera það ekki.