145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsnæðisbætur.

407. mál
[20:13]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það snýr að umræðunni um hækkun á leigu þá var eitt af því sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefndi, að ég held núna í sumar, að hún hafði áhyggjur af þeirri hækkun sem við höfum séð á leiguhúsnæði, og spurði hvort möguleiki væri á að taka upp sambærilegar reglur og við þekkjum í Danmörku varðandi einhvers konar þak á hækkun húsaleigu. Það sama hafa menn verið að gera í Þýskalandi. Við fórum sérstaklega til Danmerkur í danska húsnæðismálaráðuneytið til að fara í gegnum þær reglur sem Danir eru með. Þar fengum nákvæmar upplýsingar um það. Það sýnir sig að það eykur mjög flækjustigið þegar bætt er við lagaákvæðum sem snúa að hækkun. Menn þurfa þá að grípa til annarra aðgerða til að tryggja að það sé nægilegt framboð.

Þess vegna er ég svo ánægð með að í kvöld skuli ég fá að mæla fyrir frumvarpinu um almennu íbúðirnar. Ég held að það sé mjög stórt og mikilvægt skref til þess að tryggja að nægt framboð sé á félagslegu húsnæði. Við erum með mjög langa biðlista þegar kemur að félagslegu húsnæði. Það er mikilvægt að við búum til kerfi til framtíðar sem mun halda áfram að bæta við þau úrræði sem við höfum varðandi félagslegt húsnæði. Það eru þá félög sem rekin eru á grundvelli almannaheillasjónarmiða þar sem það sem rukkað er í leigu er bara kostnaðurinn við rekstur félagsins og afborgun af lánum. Það sýnir sig líka í útreikningunum að breytingarnar sem við erum að gera núna á húsnæðisbótakerfinu eru lykilatriði í því að við náum markmiði okkar, yfirlýsingunni um að greiðslubyrði leigjenda verði ekki meiri en 20–25% af tekjum. Við þurfum þetta samspil, þessar breytingar hér, til þess að við getum náð markmiðum okkar. (Forseti hringir.) Síðan er annað sem ég hef líka velt fyrir mér og það er eitt af því sem ég er að reyna að gera, þ.e. að tryggja meira gagnsæi í leiguverðinu (Forseti hringir.) þannig að upplýst sé meira um það, líka hjá félagslega húsnæðinu sem hefur ekki kannski verið (Forseti hringir.) ...