145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsnæðisbætur.

407. mál
[20:17]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi sérstöku húsaleigubæturnar, eða þann húsnæðisstuðning sem sveitarfélögin geta komið með til viðbótar við þá framfærsluaðstoð sem þau veita í gegnum félagsþjónustuna, þá fjallar frumvarpið ekki sérstaklega um það. Það hefur verið þannig að hvert og eitt sveitarfélag hefur í raun getað sett sér reglur sem snúa að framfærsluaðstoð. Ég vonast til að koma aftur fram með frumvarp sem snýr að svokallaðri skilyrðingu eða virknifrumvarp varðandi félagslega aðstoð. Við erum að reyna að taka skref til að skilgreina betur og ramma af þær reglur sem gilda um framfærsluaðstoð. Það er eitt af því sem ég tel líka að þurfi að skoða varðandi heildarendurskoðun á félagsþjónustulögum, þ.e. hvort við eigum í auknum mæli að fara að setja skýrari reglur um þá framfærsluaðstoð sem sveitarfélög veita. (Forseti hringir.) Þar sjáum við að það er með mismunandi hætti annars staðar á Norðurlöndunum en ekki er fjallað um það sérstaklega í þessu frumvarpi.