145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsnæðisbætur.

407. mál
[20:20]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður bendir á er kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins mjög ítarleg varðandi þetta frumvarp. Allt að því 17 blaðsíður þar sem er farið nákvæmlega í gegnum efnisatriði málsins. Hvað varðar athugasemdir um fjárstreymi til sveitarfélaganna eða þá fjármuni sem má segja að séu skildir eftir miðað við þetta hjá sveitarfélögunum þá er það okkar niðurstaða að ef menn telja ástæðu til að breyta þeim fjármunum sem eiga að fara til sveitarfélaganna sé það eitthvað sem fellur undir önnur ráðuneyti. Það er innanríkisráðuneytið sem fer með sveitarstjórnarmálin og svo fjármálaráðuneytið sjálft sem hefur leitt viðræður um skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga.

Það má hins vegar líka benda á að í frumvarpinu um almennu íbúðirnar er verið að ramma af og setja ákvæði í lög um að sveitarfélög eigi að koma með allt að því 12% mótframlag inn í almennu íbúðirnar, sem hefur ekki verið lögbundið á sama hátt og verið er að gera þar. Að einhverju leyti gætu þeir fjármunir komið til móts við þann aukna kostnaðarauka sem kemur þar inn. En það er ekki fjallað sérstaklega um það í þessari umsögn.

Varðandi gagnrýni á tvö stjórnsýslustig er það þannig að það sem verður kallað sérstakar húsaleigubætur er í mínum huga framfærsluaðstoð. Fólk þarf hvort sem er að leita til félagsþjónustunnar og fá stuðning þar, ef það er að leita eftir framfærsluaðstoð frá sveitarfélaginu. Það er engin breyting hvað það varðar. Hér erum við að tala um almennan stuðning varðandi húsnæðiskostnað, hitt er hins vegar félagsleg aðstoð. Þar leita menn að sjálfsögðu til sveitarfélaganna ef þeir þurfa á félagslegri aðstoð að halda.

Ég fæ að koma að þriðja og fjórða atriðinu sem hv. þingmaður nefndi í seinna andsvari mínu.