145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

almennar íbúðir.

435. mál
[20:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar ræðu. Þetta er um margt áhugavert og spennandi frumvarp. Mér fannst jákvætt að heyra það sem hæstv. ráðherra sagði, um hið mikla samráð sem haft hefði verið við samningu frumvarpsins. Ég verð að segja að ég hlakka mjög til að sjá þær umsagnir sem frumvarpið mun fá því að þetta eru um margt mjög spennandi mál. En, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni, er ýmislegt sem þarf að hafa í huga.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra talaði um mikilvægi þess að landsmenn búi við öryggi í húsnæði og ég er svo sannarlega sammála henni um það. Hún talaði um íbúðir fyrir efnaminni leigjendur og þá reyndar sérstaklega um tekjulágt ungt fólk sem ekki hefur átt kost á félagslegu húsnæði. Það er það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins nánar út í, það sem varðar 18. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Almennar íbúðir skulu útbúnar og innréttaðar þannig að þær uppfylli þarfir íbúa þannig að ásættanlegt sé.“

Þetta er að mínu mati ansi loðið hugtak og mig langar að spyrja út í það hvort hér sé verið að slá af kröfum um aðgengi. Hér er talað um að íbúðirnar skuli útbúnar og innréttaðar, en hvað með að byggja? Er hægt að fá stofnframlög til að byggja íbúðir þar sem slegið er af kröfum um aðgengi?

Hæstv. ráðherra sagði sjálf að húsnæðið ætti að vera fyrir allar fjölskyldur en ekki bara sumar. Mér finnst mjög mikilvægt að spyrja nánar út í það því að sumar fjölskyldur eru þannig að þær reiða sig mjög á aðgengi.