145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

almennar íbúðir.

435. mál
[20:56]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í Danmörku eru að sjálfsögðu líka byggðar almennar íbúðir fyrir fólk sem býr við fötlun. Í 2. gr. er fjallað um skilgreiningar og þar segir um íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélaga:

„Íbúðarhúsnæði sem sveitarfélög úthluta og er ætlað þeim sem sveitarfélögum ber sérstök lagaskylda til að veita úrlausn í húsnæðismálum, svo sem vegna fötlunar eða geðfötlunar eða þeir eru ekki á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra tekna, þungrar framfærslubyrði eða annarra félagslegra aðstæðna.“

Í atkvæðaskýringum varðandi fjárlögin kom ágæt tillaga frá hv. þingmanni um fjárveitingar til búsetuúrræða fyrir geðfatlaða og ég tel mjög mikilvægt að þeir sem eru að huga að húsnæðismálum fólks með geðfötlun, eða fólks sem býr við annars konar fötlun, fari mjög vel yfir frumvarpið því að þetta á að gilda fyrir þá eins og aðra hópa sem eru tilgreindir hér.

Í 1. gr. segir að stuðla eigi að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þar með talið fyrir námsmenn, ungt fólk, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda.

Samkomulag sem náðist nýlega við sveitarfélögin er endanlegt samkomulag varðandi yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks en í skýrslunni, sem verkefnisstjórnin vann, kemur fram að þetta er almenna kerfið sem snýr að uppbyggingu íbúðanna sjálfra. En hugsunin er þá sú að við getum nýtt þá fjármuni sem fóru yfir í jöfnunarsjóðinn til að byggja upp séraðstöðu og annan búnað sem snýr að aðgengismálum og í þann aukakostnað sem getur orðið vegna húsnæðis hvað þetta varðar. En hér er verið að horfa á það að byggja húsnæði og líka leyfilegt að kaupa húsnæði.