145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

almennar íbúðir.

435. mál
[21:05]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var kannski ein af þeim greinum sem tók hvað lengstan tíma að ná utan um og átta sig á hver væri hugsunin þarna á bak við. Þessi sjóður er að mínu mati algert lykilatriði varðandi þá þætti að tryggja sjálfbærnina til framtíðar og að við breytum kannski þeim hugsunarhætti okkar að fara í sérstök átök á nokkurra áratuga fresti um uppbygginguna, frekar að kerfið taki raunar smátt og smátt við þessu og sjái sjálft um þetta.

Við höfum séð, þó að gengið hafi á ýmsu hérna hjá okkur, að þetta hefur virkað á Íslandi. Það hefur virkað að byggja upp lífeyrisréttindi hjá okkur umfram það sem flest önnur ríki hafa gert. Við sjáum að stór hluti til dæmis af stuðningi við veika fer í gegnum verkalýðsfélögin, í sjúkrasjóðina hjá þeim. Þeir hafa verið mjög öflugir í því að standa að fullorðinsfræðslu. Nýjasta verkefnið hefur verið starfsmenntasjóðurinn og þar erum við að sjá verulegan árangur varðandi fjölgun fólks á örorku, gerbreyting er á því hver prósentuhækkunin var á árunum milli 2005 og 2006 versus það sem er í dag þrátt fyrir að við höfum farið í gegnum þessi miklu efnahagsáföll árið 2008. Ég held því að þetta sé einmitt eitthvað sem eigi að vera í fullu samræmi við þær áherslur, en að sjálfsögðu komum við síðan að því að þurfa að taka ákvörðun um hvað við setjum mikið fjármagn á hverju ári að loknum þessum fjórum árum. Þar höfum við að jafnaði verið að styðja við að meðaltali frá því Íbúðalánasjóður var settur á stofn um 250 íbúðir, og hvort það dugi til. Það verður þá síðan sá grunnur sem húsnæðismálasjóður mun (Forseti hringir.) byggja á, framlögin af þeim íbúðum munu þá koma með tíð og tíma, (Forseti hringir.) eins og var nefnt hér, eftir nokkra áratugi inn í þennan sjóð.