145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

almennar íbúðir.

435. mál
[21:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í seinna andsvari fjalla aðeins um kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins sem er nú pólitískt og hagfræðilega algerlega úti að aka þegar kemur að þeirri staðhæfingu að frá hagfræðilegu sjónarmiði sé almennt ekki talið heppilegt að hið opinbera hafi mikil afskipti eða beiti miklum inngripum á húsnæðismarkaði. Ég veit satt að segja ekki alveg hvar menn eru upp aldir sem skrifa svona lagað, en það eru ekki fyrir því reynslurök, alla vega í norðanverðri Evrópu síðustu 100 árin, að þetta eigi við rök að styðjast.

Hins vegar má kannski segja og gantast með það, vegna þess að klukkan er farin að ganga 10 á föstudagskvöldi, að það er kannski huggun harmi gegn að þessi mál hafi öll tafist eitthvað því að það kemur líka fram í kostnaðarumsögninni að við séum komin mjög langt í hagsveiflunni og séum á fimmta ári hagvaxtar og að líkindum í upphafi þenslutímabils, þannig að það má þá bara vona að þetta taki svona ár að klára þetta. Það þýðir að þá verða menn tilbúnir að fara í byggingarframkvæmdir, því þá er kerfið auðvitað tilbúið, akkúrat þegar menn þurfa að örva hagkerfið á nýjan leik þegar þeim tíma lýkur.

En í fullri alvöru sagt er auðvitað ekki hægt að horfa af svona stuttum sjónarhóli á jafn mikla og mikilvæga kerfisbreytingu og þetta er. Staðreyndin er ósköp einfaldlega sú að verkamannabústaðakerfið sem var við lýði frá 1927–1999 virkaði gríðarlega vel og í því voru uppsöfnuð gríðarleg verðmæti sem voru síðan eiginlega eyðilögð og það mun auðvitað taka kannski ámóta jafn langan tíma að byggja aftur upp hliðstæð samfélagsleg verðmæti. Það er ekki hægt að líta á þetta frá grundvelli hagsveiflunnar frá einum tíma til annars.