145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsaleigulög.

399. mál
[21:35]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er áhugaverð hugmynd. Þar kemur auðvitað upp vandi íslenskra leigumarkaða. Hann er að svo miklu leyti í höndum einstaklinga sem leigja út eigið húsnæði. Það er jákvætt að því leyti að í gegnum tíðina hafa margir verið með tiltölulega sanngjarna leigu af því að fólk hefur valið að innheimta frekar lægri leigu og fá þá fólk sem það treystir og veit að gengur vel um húsnæðið. Hins vegar hefur það líka leitt til þess að það hefur ýtt undir óöryggi fólks. Það leigir íbúð og svo kemur dóttir heim úr námi eða frænka og þá þarf að losa íbúðina og fólk þarf að fara með stuttum fyrirvara. Eins er óöryggið meira því að einn einstaklingur tekur áhættu af því að leigja út fasteign og vill því fá tryggingarfé. Þetta fylgir þeim einstaklingsmarkaði sem við Íslendingar höfum lagt upp með og er auðvitað beint afsprengi séreignarstefnunnar. Við höfum ekki verið tilbúin að byggja upp alvöruleigufélög.

Þegar hæstv. ráðherra talar um einhvers konar samtryggingarsjóð leigusala, er hún þá ekki fyrst og fremst að horfa á þá leigusala sem eru á markaði í atvinnuskyni? Allir þeir einstaklingar sem leigja út húsnæði — nú er ég ekki að hallmæla því fólki, það er bara fólk sem er að leigja út eignirnar sínar og það er ósköp jákvætt að það sé framboð á slíkum eignum en það er miklu erfiðari markaður að eiga við og oft og tíðum miklu erfiðari fyrir leigjendurna. Er þessi sjóður hugsaður fyrst og fremst fyrir fasteignafélög eða er hugmyndin sú að fólk sem leigir almennt út húsnæði verði aðilar að einhverjum slíkum sjóði?