145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsaleigulög.

399. mál
[21:38]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ákvæðið eins og við höfum hugsað það snýr fyrst og fremst að lögaðilum. Þetta er bara eitt af því sem ég held að nefndin muni skoða, þ.e. hvort það væri mögulegt fyrir fleiri einstaklinga að taka sig saman og ná að deila áhættunni með þessum hætti.

Eins og ég talaði um var mjög greinilegt í tillögunni sem við fengum frá samvinnuhópnum og verkefnisstjórnin talaði um að verið væri að vega þessi ólíku sjónarmið. Leigjendur hafa verið hjá leigusölum sem eru mjög ósanngjarnir en leigusalar hafa margir hverjir líka mjög slæma reynslu af vanefndum leigjenda og slæmri umgengni. Það getur tekið mjög langan tíma og verið mjög erfitt að ná fólki út úr húsnæði þegar það er hætt að borga leigu og jafnvel búið að skemma húsnæðið. Kostnaðurinn við það er orðinn margfalt umfram trygginguna. Eitt af því sem við erum til dæmis ekki með í frumvarpinu en ég veit að innanríkisráðuneytið hefur verið að skoða er hvort hægt sé að hraða því að koma fólki út úr húsnæði þegar það hefur algerlega brugðist samningsskyldum sínum gagnvart leigusalanum. Þegar kemur að þessu erum við enn á ný að reyna að vega mismunandi sjónarmið. Það er rétt að upphæðin getur verið há fyrir efnaminna fólk, sem þeir sem eru á leigumarkaðnum eru svo sannarlega, en við vonumst alla vega til þess að með því að ramma þetta af, taka út fyrirframgreiðsluna séum við að bæta stöðu leigjenda, en að sama skapi er mikilvægt og þarf að tryggja að fólk sé tilbúið að leigja út húsnæði sitt. Einstaklingar sem leigja út eigið húsnæði eru mjög stór og mikilvægur þáttur af íslenska leigumarkaðnum og það er mikilvægt að svo verði áfram.