145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[22:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Rétt aðeins um þær eignir sem um er að ræða. Það er töluvert mikið laust fé hér undir. Það mun rata, eins og ég gat um í framsöguræðu minni, beint inn á reikning ríkisins í Seðlabankanum. Síðan er þar um að ræða töluvert af skráðum eignum. Það geta verið skráð skuldabréf, það geta verið skráð hlutabréf, eins óskráðar eignir, óskráð hlutabréf, óskráð skuldabréf, aðrar eignir, kröfur og annað þess háttar. Ég tel að það muni að verulegu leyti ganga tiltölulega hratt fyrir sig að koma sérstaklega skráðum eignum í verð og vandséð er að það þurfi að taka mjög langan tíma. En gegnsæi um allt fyrirkomulag, hvaða verklagi verður beitt við að koma eignum í verð, er til bóta fyrir alla hlutaðeigandi, ekki síst félagið sjálft, til þess að eyða allri tortryggni. Ég býð bara fram gott samstarf við nefndina um að útfæra það með besta mögulega móti. Við munum leggja fyrir nefndina drög að samningi og taka við öllum góðum ábendingum um hvernig hægt er að ná þessu sameiginlega markmiði okkar, að ljóst sé hvaða meginreglur skuli hafðar til grundvallar við að koma eignunum í verð. Eitt sem manni kemur til hugar í þessu er að einhvers konar regluleg skil verði með greinargerð um það sem gerst hefur síðasta ársfjórðunginn eða eitthvað því um líkt sem hægt væri síðan að kynna í nefnd.

Ég tek eftir og þakka fyrir undirtektir við þetta fyrirkomulag með Ríkisendurskoðun. Varðandi ESÍ eru komnar fram spurningar, í það minnsta frá umboðsmanni, sem Seðlabankinn hefur fram í apríl til að bregðast við. En ef í þessu ferli er einhvern veginn hægt að bregðast við óskum (Forseti hringir.) Seðlabankans til að koma því félagi betur í skjól eða renna traustari stoðum undir tilvist þess er sjálfsagt að taka það með til athugunar.