145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[22:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en vil bara leggja áherslu á það að þegar frumvarpið fer til hv. efnahags- og viðskiptanefndar hugi hún sérstaklega að þeim markmiðum frumvarpsins sem lúta að gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Ég reikna með að hv. þingmenn í nefndinni séu reiðubúnir til að kanna til hlítar hvort ekki sé þörf á að skrifa þar nánar inn, og þá vil ég sérstaklega nefna það sem kom fram í andsvörum áðan, annars vegar ábyrgðin á þessu félagi, hvers stjórn á að skipa af Seðlabankanum en eftirlitið á að vera í höndum Ríkisendurskoðunar. Mér finnst mjög mikilvægt að við séum sannfærð um að þessi ábyrgðarkeðja sé rétt, að það sé rétt leið að fara að félagið sé staðsett í Seðlabanka en eigi að síður lúti ekki stjórnsýslulögum, sé að fara með verkefni sem er ekki venjubundið verkefni Seðlabanka Íslands, sem er umsýsla eigna. Þess vegna lagði ég fram spurningu áðan um aðrar mögulegar leiðir. Mér finnst mjög mikilvægt að þessi ábyrgðarspurning sé reifuð í nefndinni.

Hins vegar mundi ég leggja á það áherslu að eftirlitshlutverk þingsins sé skýrt betur í lögunum. Eins og það er sett fram er það í raun og veru bundið við, lagalega, að þetta snúist um að kynna fyrir efnahags- og viðskiptanefnd á undirbúningsstigi fjárlagafrumvarps hvort sala eigna hafi einhver áhrif á fjármálastöðugleika. Ég held hins vegar að ef við viljum tryggja þetta gagnsæi sem hér er sett fram sem sérstakt markmið sé mikilvægt að við skilgreinum betur hvernig nákvæmlega samráði við þingið á að vera háttað og setjum það jafnvel inn í lögin.

Ég held að þegar við förum yfir þetta mál í nefndinni í janúar sé mjög mikilvægt að þessar spurningar séu uppi á borðum þannig að við getum að minnsta kosti öll reynt að fá sannfæringu fyrir því að þetta sé rétta fyrirkomulagið, að hafa þetta félag staðsett inni í Seðlabankanum. Eins og ég segi hefði mér þótt eðlilegt að minnsta kosti að nefndin færi vel yfir þann rökstuðning og hvort ekki hefði þá verið eðlilegra að hafa sérstakt félag eða setja verkefnið inn í Bankasýslu. Af hverju er ég að velta þessu fyrir mér? Jú, af því að ég vil að ábyrgðin á verkefninu sé skýr. Ég vil að hv. þingmenn hafi mjög skýra mynd af því hvar ábyrgðin liggur á verkefninu af því að verið er að sýsla hér með miklar eignir og máli skiptir að það sé gert á fullkomlega faglegan hátt. Þetta er fyrra atriðið og hið síðara lýtur að eftirliti þingsins.

En af því að það er orðið framorðið ætla ég svo sem ekki að lengja umræðuna. Ég reikna með að hv. efnahags- og viðskiptanefnd — og ég sé að formaður hennar er hér frammi — gefi sér góðan tíma til að fara yfir þetta mál og við fáum þar tækifæri til að reifa allar spurningar sem geta komið upp í kringum það.