145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[22:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Í sambandi við þessa umræðu hefur örlítið verið vikið að þeirri eignaumsýslu sem nú þegar á sér stað á vettvangi Seðlabankans og að áliti umboðsmanns Alþingis frá liðnu hausti þar um. Ég á ekki sæti í efnahags- og viðskiptanefnd sjálfur, (ÖS: Því miður.) en ég vildi árétta að það væri þá skoðað samhliða meðferð þessa frumvarps hvernig lagagrundvöllurinn er undir þeirri eignaumsýslu sem þegar er fyrir hendi innan Seðlabankans. Athugasemdir umboðsmanns lutu meðal annars að því að sá lagagrundvöllur væri ekki með öllu traustur. Nú þykist ég vita að Seðlabankinn sé annarrar skoðunar en ég held hins vegar að það sé mikilvægt að þetta sé skoðað á vettvangi nefndarinnar samhliða þessu máli.

Athugasemdir umboðsmanns lutu líka að því hvernig framkvæmdin hefði verið og að því marki sem það getur tengst þessu máli tel ég rétt að efnahags- og viðskiptanefnd afli sér upplýsinga um það. Það er rétt, sem kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra hér áðan, að Seðlabankinn hefur eftir tilmælum umboðsmanns tíma fram í apríl til að bregðast við. Það er hins vegar eðlilegt að mínu mati að nefndin veiti þessu athygli samhliða meðferð þessa máls.

Bréf umboðsmanns — þetta er ekki álit heldur bréf — er til umfjöllunar á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar hefur málsmeðferð fram að þessu verið með þeim hætti að umboðsmaður hefur ítarlega gert grein fyrir efni bréfsins og að sama skapi hefur verið fundað með bæði Seðlabanka og fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um málið. Frekari upplýsingar og gögn og frekari umfjöllun um málið verður á þessum vettvangi. Þó að þetta efni, þ.e. eignaumsýsla innan bankans, sé aðeins hluti af þessu máli tel ég rétt að um verði að ræða einhvers konar samtal milli þessara nefnda um þessi atriði, þegar meðferðin hefst á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar.