145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[22:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hafi ég skilið spurningu hv. þingmanns rétt undir lok andsvars hans þá var hún um það hvort ég teldi að tryggilega væri búið um það með hvaða hætti andvirði innleystra eigna, sem væri búið að umbreyta í reiðufé, komið inn á reikning ríkisins í Seðlabankanum, yrði varið. (Gripið fram í.) Nei, ég er það nú ekki. Ég er ekki alveg sáttur við það. Eins og ég skildi þetta og muni ég rétt þá segir svo í 3. málslið 4. mgr. 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðherra skal hafa samráð við Seðlabankann um mat á áhrifum þessa á efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika og kynna málið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd á undirbúningsstigi fjárlagafrumvarps.“

Herra forseti. Það er hægt að hugsa sér þá stöðu að efnahags- og viðskiptanefnd væri ekki fyllilega sátt við málið. Þá er það samt þannig að ríkisstjórn gæti samt keyrt það í gegn. Jú, hún gæti það. Því miður tel ég að þingræði okkar og lýðræði sé með þeim hætti að það væri alveg hægt að hugsa sér það. Ég tel þess vegna að betra væri eins og ég sagði áðan að það yrði aðeins fastar að orðið kveðið. Ég geri til dæmis greinarmun á samráði og kynningum, merkingu þeirra tveggja orða. Ég hefði að minnsta kosti viljað að það væri með einhverjum hætti, hugsanlega í nefndaráliti, skýrt betur hvert hlutverk efnahags- og viðskiptanefndar er. Ég er að segja það að hún eigi að geta sett niður hemla ef henni þykir svo. Ég er að segja að þessir tveir valdþættir, Seðlabankinn og þingið, í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd, (Forseti hringir.) eigi að minnsta kosti að vera jafn gildir.