145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fullgilding bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (OPCAT).

6. mál
[22:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Mig langar í ljósi þessarar umræðu að segja hvað mér finnst mikilvægt að við séum byrjuð að ræða svolítið um eðli refsinga versus betrun og frelsissviptingu. Ég held að við munum sjá töluvert mikla viðhorfsbreytingu á næstunni af því að ég held að margir Íslendingar sjái ekki tilgang í refsigleði. Það hefur verið þannig ástandið núna til dæmis í fangelsismálum að ekki er nægilega vel að þeim málaflokki staðið meðal annars varðandi fjárveitingar til að geta leyft fólki að afplána. Það er eitthvað sem mér finnst við virkilega þurfa að skoða heildrænt. Um það fjallar frumvarp sem liggur fyrir Alþingi núna sem væntanlega fær ítarlega umfjöllun. Mér finnst tilefni til að við skoðum þessi mál út frá nútímanum og út frá tilganginum. Af hverju er verið er að frelsissvipta fólk, er það út af því að það er hættulegt? Eftir að maður byrjaði að starfa hér á þingi og fór að skoða betur lagarammann og forsendur veltir maður þessu fyrir sér. Fólk afplánar dóm, en er samt með einhvers konar sakaskrá og það er eiginlega alveg sama hver glæpurinn er, frelsissvipting virðist vera eina lausnin. Mig langaði bara að segja að mér finnst gott það sem ég hef tekið eftir í umræðunni, að viðhorfin eru töluvert að færast inn í nútímann.