145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[10:40]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að gefa stjórnarþingmönnum enn eitt tækifæri til að koma með okkur í þann leiðangur að gera lægstu lífeyrisþegana jafn setta lægstu launum á vinnumarkaði. Það verður ekki gert með því að koma með hækkun 1. janúar, eins og hv. þm. Oddný Harðardóttir fór vandlega yfir. Þar að auki mun strax 1. maí aftur gliðna á milli lægstu launa og greiðslna frá almannatryggingum. Ef menn standa með því sem þeir segja, að þeir vilji raunverulega hag þessara hópa sem bestan, koma þeir með okkur í þennan leiðangur og greiða atkvæði með tillögu okkar. Tillaga ríkisstjórnarinnar hér er að skilja þessa hópa eftir.