145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[10:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það má segja að nú sé ögurstund í stöðu og kjörum öryrkja og aldraðra, þ.e. þegar kjararáð þessara hópa lýkur sínum síðasta fundi. Það er þessi þingfundur sem tekur ákvörðun um hvernig heimilisbókhaldið lítur út á heimilum öryrkja og aldraðra á Íslandi um næstu og þarnæstu mánaðamót, hvernig lítur út með að líta glaðan dag, að geta gefið jólagjafir eða brugðist við uppákomum í daglegu lífi. Þetta er skref í áttina að því að draga úr fátækt á Íslandi og ég skora á stjórnarliða að skoða hug sinn afar vel núna á þessum síðasta þingdegi fyrir jól.